Nýr forsætisráðherra í Bretlandi verður kynntur þann 5. september næstkomandi.
Ellefu einstaklingar hafa boðið sig fram sem arftakar Boris Johnsons, núverandi forsætisráðherra, þegar hann stígur til hliðar í haust. Vilja þeir taka við sem leiðtogar Íhaldsflokksins.
Pennu Mordaunt, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bretlands, þykir sigurstrangleg, ef marka má skoðanakannanir á vefsíðu þingflokksins. Á eftir henni koma Kemi Badenoch jafnréttismálaráðherra, og Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra.
Til þess að komast í fyrstu umferð kosninga þurfa frambjóðendur að tryggja sér tuttugu tilnefningar úr hópi 358 þingmanna Íhaldsflokksins.
Þá verður kosið og þeir sem ekki hljóta þrjátíu atkvæði, falla úr lestinni, en aðrir komast áfram í næstu umferð kosninga.
Nánast hver einasti framjóðandi hefur lofað veglegum skattalækkunum, í von um að vinna þannig hug og hjörtu samflokksmanna sinna, að því er fram kemur í frétt Reuters.
Formaður nefndarinnar sem annast kosningarnar, Graham Brady, segist vona að valið á nýjum formanni fari fram hratt og snyrtilega. Hann á von á því að kosningarnar verði líflegar, en í þeim felist tækifæri til að móta framtíðarstefnu flokksins.
Með þessari aðferð verður hópurinn þrengdur þar til hann telur aðeins tvo frambjóðendur. Að lokum geta allir sem skráðir eru í Íhaldsflokksinn kosið milli þeirra.