Johnson vildi ekki lýsa yfir stuðningi við neinn frambjóðanda

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, heimsótti í dag Francis Crick-stofninuna í …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, heimsótti í dag Francis Crick-stofninuna í London. Þetta var fyrsti opinberi viðburður Johnsons frá því hann greindi frá því fyrir helgi að hann myndi víkja sem forsætisráðherra. AFP

Bor­is John­son, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, vildi ekki lýsa yfir stuðningi við neinn þeirra fram­bjóðenda sem sækj­ast eft­ir for­sæt­is­ráðherra­embætt­inu, þegar hann hitti frétta­menn á viðburði í dag. 

Þetta var fyrsti op­in­beri viðburður John­sons frá því hann greindi frá því í síðustu viku að hann myndi segja af sér embætti. John­son hyggst aft­ur á móti sitja í ráðuneyt­inu þar til arftaki hef­ur verið fund­inn. 

Hingað til hafa 11 ein­stak­ling­ar lýst því yfir að þeir vilji leiða Íhalds­flokk­inn og taka við völd­um í Down­ingstræti, en bú­ist er við því að flokk­ur­inn muni senda frá sér nán­ari tíma­áætl­un og skipu­lag varðandi kjörið síðar í dag. 

John­son heim­sótti vís­inda­stofn­un í London í dag. Þar var hann spurður beint hvort hann vildi lýsa yfir stuðningi við fram­bjóðanda. 

„Verk­efni for­sæt­is­ráðherr­ans á þessu stigi er að láta flokk­inn ráða, leyfa þeim að tak­ast á við verk­efnið, og halda áfram áfram að sinna þeim verk­efn­um sem við vor­um kos­in til að sinna,“ sagði John­son.

Fall John­sons hef­ur vakið heims­at­hygli enda aðeins í des­em­ber 2019 þar sem hann vann stór­sig­ur í bresku kosn­ing­un­um þegar hann lofaði að leiða Bret­land út úr Evr­ópu­sam­band­inu. Flokk­ur­inn hlaut 80 sæta meiri­hluta þá, að því er fram kem­ur í um­fjöll­un AFP-frétta­veit­unn­ar. 

Þingstyrk­ur John­sons gerði hon­um kleift að koma Brex­it í gegn en tíð hans í for­sæt­is­ráðuneyt­inu hef­ur verið þyrn­um stráð í kjöl­far fjöl­margra hneykslis­mála, ekki síst eft­ir að það kom í ljós að veisl­ur voru haldn­ar í Down­ingstræti þegar aðgerðir í land­inu höfðu verið stór­hert­ar vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Var John­son sektaður af lög­reglu vegna sótt­varna­brota. 

Annað hneykslis­mál reynd­ist síðan vera síðasta kornið sem fyllti mæl­inn þegar það kom í ljós í liðinni viku að John­son hefði ráðið Chris Pincher sem varaþing­flokks­formann, þrátt fyr­ir að hon­um hefði mátt vera kunn­ugt um ásak­an­ir á hend­ur Pincher um kyn­ferðis­brot og áreitni. 

Í ávarpi sínu, þegar John­son greindi frá af­sögn­inni, sakaði hann „hjörð“ um að hafa sótt að sér. Stuðnings­menn for­sæt­is­ráðher­ranns hafa m.a. verið mjög ósátt­ir við Ris­hi Sunak, sem er fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra í stjórn John­sons. 

Spurður í dag hvort hann hefði upp­lifað svik, þá sagðist John­son ekki vilja ræða þau mál frek­ar.

„Það er haf­in bar­átta eins og þið vitið, og ég vil ekki skaða tæki­færi annarra með því að lýsa yfir stuðningi,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert