Mega ekki fljúga drónum í Noregi

Hæstiréttur Noregs segir dróna loftfar og þar með sé Rússum …
Hæstiréttur Noregs segir dróna loftfar og þar með sé Rússum bannað að fljúga þeim í Noregi svo lengi sem lögin um viðskiptabann gagnvart Rússlandi eru í gildi. Verjendur spyrja hvernig fari þá með Norðmenn með norskt og rússneskt ríkisfang, ná lögin yfir þá? Ljósmynd/Wikipedia.org/Andreas Haldorsen

Gæsluvarðhaldsúrskurður gegn rússneska kaupsýslumanninum Andrej Jakunin í kjölfar handtöku hans 17. október byggði á því að rússneskum ríkisborgurum væri óheimilt að fljúga drónum á norsku yfirráðasvæði. Slíkt bryti í bága við lög um viðskiptabann gagnvart Rússlandi.

Hafði Jakunin siglt til Svalbarða á glæsisnekkju sinni og flogið þar dróna er hann hafði um borð. Það var hins vegar ekki fyrr en hann hafði siglt suður til norska meginlandsins og lagt fleyi sínu við festar í Hammerfest sem lögregla handtók hann fyrir flugið.

Héraðsdómari úrskurðaði Jakunin í gæsluvarðhald en lögmaður hans kærði úrskurðinn til Lögmannsréttar Hálogalands í Tromsø. Dómendur þar hröktu úrskurðinn með þeim rökum að viðskiptabannið hefði ekkert með flug dróna að gera, en lögregla taldi drónaflugið falla undir bannið þar sem dróni teldist loftfar og Rússar mættu ekki stjórna loftförum í norskri lofthelgi.

Bernt Heiberg, verjandi Jakunins, gladdist yfir þessu og sagði við ríkisútvarpið NRK að þeir skjólstæðingur hans fögnuðu því að millidómstigið væri þeim sammála.

Hæstiréttur segir dróna loftfar

Öryggislögreglan PST, sem rannsakar mál kaupsýslumannsins, kærði hins vegar áfram til Hæstaréttar Noregs sem sneri málinu á ný í fyrrakvöld. Voru þrír hæstaréttardómarar sammála héraðsdómi, túlkun lögmannsréttar á lögunum væri röng, rússneskir ríkisborgarar mættu ekki fljúga drónum á norsku yfirráðasvæði miðað við núverandi löggjöf. Var kærumálinu vísað aftur til réttarins í Tromsø.

Rússneski kaupsýslumaðurinn Andrej Jakunin situr í gæsluvarðhaldi eftir drónaflug.
Rússneski kaupsýslumaðurinn Andrej Jakunin situr í gæsluvarðhaldi eftir drónaflug. Ljósmynd/Úr einkasafni

Töldu dómendur Hæstaréttar dróna vera loftfar og vísuðu því næst til banns laganna við að Rússar stjórnuðu loftförum á norsku yfirráðasvæði. Situr Jakunin því í gæsluvarðhaldi enn um sinn á meðan lögmannsréttur tekur kærumálið frá héraðsdómi fyrir á ný.

Er Jakunin nú kominn með tvo verjendur þar sem Jens Bernhard Herstad hefur bæst þar við og skipuleggja þeir Heiberg nú áframhald varnarinnar. Eru þar þegar komin fram tvö atriði segja þeir.

Svalbarðasáttmálinn frá 1920

Jakunin hefur tvöfaldan ríkisborgararétt, breskan og rússneskan, og hefur Stórþingið ekki tekið afstöðu til þess hvort viðskiptabannið geti náð til fólks með slíkan. Væri svo hlyti viðskiptabannið einnig að ná til Norðmanna sem hefðu rússneskt ríkisfang til viðbótar við norskt.

Síðari rökin eru hins vegar þau að viðskiptabannið nái ekki til Svalbarða, slíkt bryti gegn jafnræðisákvæði Svalbarðasáttmálans sem undirritaður var í París árið 1920 og var hluti af friðarsamningunum í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Verði lögmannsréttur að taka afstöðu til framangreinds í ákvörðun sinni.

Í kjölfar handtöku Jakunins blés Hedvig Moe, næstráðandi í PST, til blaðamannafundar. Sagði hún þar ýmsar hvatir liggja að baki drónaflugi. Þar á meðal væri ljósmyndaáhugi, en önnur nálgun væri sú að drónar væru notaðir til að skapa ótta og óöryggi auk þess sem nota mætti þá við njósnastarfsemi.

NRK

ABC Nyheter

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert