Eldgosið sem braust út í Tonga-eyjaklasanum í Kyrrahafi í janúar er það öflugasta sem nokkru sinni hefur mælst með nútímabúnaði, að sögn hóps nýsjálenskra vísindamanna.
Eldfjallið Hunga Tonga-Hunga H'apai gaus neðansjávar með krafti sem jafnast á við mörg hundruð atómsprengjur og við það leystist úr læðingi 15 metra há flóðbylgja sem eyðilagði hús og varð að minnsta kosti þremur að bana.
Sæstrengir neðansjávar skemmdust einnig og missti Tonga við það samband við umheiminn í margar vikur, sem tafði björgunaraðgerðir.
The ferocious 2021 explosion blew out 2.3 cubic miles of rock, unleashing a 35-mile-high plume and a global tsunami that sent scientists racing to understand the blast. Now they're finally putting together the pieces https://t.co/cYIOkMDSO4
— National Geographic (@NatGeo) November 21, 2022
Í rannsókn nýsjálensku vísindamannanna kemur fram að um 10 rúmkílómetrar af gjósku fylgdu eldgosinu, sem jafnast á við 2,6 milljónir 50 metra sundlauga, og fór hún meira en 40 kílómetra upp í miðhvolfið, fyrir ofan heiðhvolf jarðar.
„Eldgosið náði methæðum og er það fyrsta sem við vitum um sem hefur komist inn í miðhvolfið,“ sagði sjávarjarðfræðingurinn Kevin Mackay. „Það var eins og byssu hafi verið skotið beint upp í himingeiminn.“