„Fjölskyldan er í áfalli“

Olivier Vandecasteele hefur verið dæmdur til 40 ára fangelsisvistar í …
Olivier Vandecasteele hefur verið dæmdur til 40 ára fangelsisvistar í Íran fyrir sakir sem belgísk yfirvöld kalla skáldskap, dómurinn sé hefnd fyrir dóm Belga yfir írönskum sendierindreka. Ljósmynd/Facebook-hópurinn Free Olivier Vandecasteele

Belgískur hjálparstarfsmaður, Olivier Vandecasteele, hefur verið dæmdur til 40 ára fangelsisvistar auk þess að þola 74 svipuhögg í Íran fyrir njósnir í þágu Bandaríkjanna, gjaldeyrissmygl og peningaþvætti.

Frá þessu greinir íranska Tasnim-fréttastofan og hafa yfirvöld í Belgíu þegar vísað sakarefninu á bug auk þess sem Vandecasteele sjálfur hefur haldið sakleysi sínu fram allar götur síðan hann var handtekinn í heimsókn til Írans í febrúar í fyrra.

Hadja Lahbib, utanríkisráðherra Belgíu, fordæmir aðgerðir íranskra stjórnvalda í máli Vandecasteele og segir sendiherra Írans í Brussel nú verða kallaðan á teppið.

Fórnarlamb og gísl

„Fjölskyldan er í áfalli,“ segir Olivier Van Steirtegem, náinn vinur Vandecasteele, og hvetur belgísk stjórnvöld til að láta einskis ófreistað við að bjarga fanganum úr prísundinni. „Olivier er fórnarlamb, hann er gísl,“ segir Van Steirtegem.

Belgíski dómsmálaráðherrann Vincent Van Quickenborne lét þau orð falla í desember að sakir Vandecasteele væru skáldskapur einn en írönsk yfirvöld leituðu nú hefnda fyrir 20 ára dóm Belga yfir Assadolah Asadi, írönskum sendierindreka sem ákærður var fyrir að leggja á ráðin um sprengjutilræði á fjáröflunarfundi Þjóðarráðs um andspyrnu gegn Íran, National Council of Resistance of Iran, NCRI, skammt frá frönsku höfuðborginni París í júní 2018.

The Brussels Times
Al Jazeera
Bloomberg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka