Upplifa að stjórnvöld hafi yfirgefið þau

Harðir bardagar hafa geisað í Kartúm síðan 15. apríl.
Harðir bardagar hafa geisað í Kartúm síðan 15. apríl. AFP

Breskir ríkisborgarar í Súdan upplifa sem þeir hafi verið yfirgefnir af stjórnvöldum í heimalandinu. Bresk stjórnvöld vinna nú að því að aðstoða ríkisborgara sína í Súdan við að komast þaðan eftir harða gagnrýni.

Harðir bardagar hafa geisað á milli Súd­ans­hers og upp­reisn­ar­hers­ins RSF í höfuðborginni Kartúm síðan 15. apríl síðastliðinn. Skriðdrekar fara um götur borgarinnar og hafa herirnir einnig beitt árásarþotum á borgina. Yfir 400 manns hafa týnt lífinu í átökunum og þúsundir slasast. 

Kallar eftir aðgerðum

Andrew Mitchell, ráðherra þróunarmála, varði ákvörðun stjórnvalda um að setja það í forgang að ná sendiherra landsins, starfsfólki og fjölskyldum þeirra út úr landinu fyrst. Sagði hann að sérstök ógn hafi beinst gegn þeim. 

Andrew Mitchell.
Andrew Mitchell. AFP/Daniel Leal

Breski þingmaðurinn Tobias Ellwood, sem einnig er í varnarmálanefnd þingsins, hefur kallað eftir aðgerðum til að bjarga breskum ríkisborgurum frá Súdan. 

„Ef slíkar áætlanir verða ekki gerðar í dag, þá mun fólkið missa trúna og reyna að komast þaðan sjálft,“ sagði Ellwood í samtali við GBNews. Hann sagði að þá gæti fólk komist í verulega erfiðar aðstæður. 

Fjöldi manns hefur flúið frá Súdan á síðustu dögum vegna …
Fjöldi manns hefur flúið frá Súdan á síðustu dögum vegna harðra átaka súdanska hersins og uppreisnarhers RSF. AFP/Khalil Mazraawi

Skammarleg viðbrögð

Einn Breti í landinu sagði í samtali við BBC að hann hafi neyðst til að skipuleggja flótta sinn frá landinu sjálfur á sama tíma og ríkisborgarar annarra landa hafi notið aðstoðar frá sínum stjórnvöldum. 

Maðurinn, sem kom fram undir nafninu William, sagðist hafa komist með rútuferð frá Kartúm sem súdanskur vinur hans hafi hjálpað honum að komast í. Annar að nafni Iman Abugarga sagði að hann upplifði sem bresk stjórnvöld hafi yfirgefið hann. „Það er skömm af því hvernig stjórnvöldum hefur mistekist að takast á við þetta ástand,“ sagði hann í samtali við Daily Telegraph.

Um tvö þúsund manns með breskt vegabréf hafa látið vita af sér í Súdan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert