Bólusetja endur gegn fuglaflensu

Ungarnir fá tvær sprautur.
Ungarnir fá tvær sprautur. AFP/Franska landbúnaðarráðuneytið

Frakkar hófu í dag að bólusetja endur gegn fuglaflensu í von um að komast hjá því að aflífa fjölda fugla. Er bólusetningarherferðin fyrsta sinnar tegundar í Evrópu.

„Veiran er að setja mikinn þrýsting á atvinnugreinina en vonandi mun bólusetningin leiða til þess að við þurfum einungis að glíma við einstök tilfelli, ekki stórar bylgjur,“ sagði Jocelyn Marguerie, yfirmaður alifugladeildar hjá samtökum dýralækna.

Verða býli með yfir 250 endur skyldug til þess að bólusetja andarunga. Er fyrri sprauta af tveimur gefin þegar ungarnir eru orðnir tíu daga gamlir.

Fljót útbreiðsla

Alifuglaframleiðsla í Frakklandi er sérlega viðkvæm fyrir fuglaflensu. Veiran berst hratt á milli og eru endur farnar að smita áður en einkenni flensunnar koma fram.

Fuglaflensa herjaði á alifuglabændur í Frakklandi árin 2015 til 2017, og frá árinu 2020 hafa tilfelli komið stöðugt upp. Ef veiran greinist þarf að fella allar endur á viðkomandi býli.

Dýralæknasamtökin gera ráð fyrir 60 milljónum anda í bólusetningu fyrir næsta sumar.

Fyrstu bólusetningarskammtarnir, sem telja 80 milljónir, eru frá fyrirtækinu Boehringer Ingelheim.

Umdeild bólusetning

Bólusetningarherferðin er þó ekki óumdeild en bóndi í Landes-héraði sagði við fréttastofu AFP að viðskiptavinir hans væru síður en svo sáttir við fyrirkomulagið. Kærðu þeir sig ekki um andarkjöt frá bólusettum öndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert