„Pútín ber glæpsamlega ábyrgð“

Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AFP

Evrópuþingið segir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti beri glæpsamlega og pólitíska ábyrgð á dauða rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans Alexei Navalnís.

Navalní, einn harðasti gagnrýnandi Pútíns, lést í fangelsi þann 16. þessa mánaðar við óljósar aðstæður en leiðtogar Evrópusambandsins hafa kennt Pútin um dauða hans sem og eiginkona og fjölskylda.

„Rússneska ríkisstjórnin og Vladímír Pútín bera persónulega glæpsamlega og pólitíska ábyrgð á dauða áberandi andstæðings þeirra, Alexei Navalnís,“ segir í ályktun Evrópuþingsins en 506 af þeim 705 sem sitja á þinginu greiddu atkvæði með ályktuninni. Aðeins níu greiddu á móti.

Að auki óskaði Evrópuþingið eftir því að 27 aðildarríki ESB efli stuðning við rússneska pólitíska fanga og haldi áfram að styðja lýðræðislega stjórnarandstöðu í Rússlandi.

Navalní verður jarðsunginn í suðurhluta Moskvu á morgun en yfirvöld afhentu loks móður Navalnís lík hans á laugardaginn.

Rússnesk yfirvöld hafa þverneitað fyrir það að bera ábyrgð á dauða Navalnís en þau segja að hann hafi látist af eðlilegum orsökum eftir að hann missti meðvitund eftir gönguferð í fanganýlendunni á norðurslóðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka