Líkir veðmálabraskinu við „Partygate“-hneykslið

Michael Gove.
Michael Gove. AFP

Michael Gove, einn helsti framámaður breska Íhaldsflokksins, líkti meintu veðmálabraski innan flokksins við „Partygate“-hneykslið svokallaða.

Laura Saunder og Craig Williams, frambjóðendur Íhaldsflokksins, og lífvörður Rishi Sunaks, forsætisráðherra Bretlands, eru meðal þeirra sem hafa verið sökuð um að veðja á tímasetninu þingkosninganna í Bretlandi.

„Það lítur út fyrir að eina regla gildi fyrir þau og önnur fyrir okkur. Það er líklega mesti skaðvaldurinn,“ sagði Gove í viðtali við Times.

„Það olli skaða á þeim tíma sem „Partygate“-hneykslið kom upp og veldur skaða núna,“ bætti Gove við.

Gove hyggst ekki gefa kost á sér í þingkosningunum en þær verða haldnar 4. júlí.

Baðst afsökunar á myndskeiði

Ítrekuð veisluhöld breskra ráðamanna á tímum strangra samkomutakmarkana í Bretlandi ollu miklum usla á sínum tíma. Varð málið Boris Johnson, þáverandi forsætisráðherra, að falli.

Birtist meðal annars myndskeið í fjölmiðlum sem sýndi veisluhöld Íhaldsflokksins rétt fyrir jólin árið 2020. Gove baðst í kjölfarið afsökunar á myndskeiðinu. Þar sáust starfsmenn og þingmenn dansa og drekka á meðan að þau töluðu um að beygja reglurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka