Ríkissaksóknari hefur ákært sex einstaklinga, fimm karla og eina konu, fyrir ýmis fíkniefnalagabrot. Ákæran er í nokkrum liðum og þáttur sakborninga afar mismunandi. Þó má ráða af ákærunni að málin hafi flest sprottið af rannsókn lögreglu á stórfelldum innflutningi fíkniefna til landsins í október; máli sem kallað var stærsta fíkniefnamál ársins 2011.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur um miðja viku. Stærsti ákæruliðurinn er á hendur tveimur karlmönnum sem gefið er að sök að hafa flutt inn til landsins tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin fluttu mennirnir til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október. Lögregla lagði hald á efnin samdægurs.
Í gámnum voru einnig steralyf af ýmsum gerðum og er þriðji maður ákærður fyrir þann þátt. Sá er einnig ákærður í öðrum ákærulið fyrir að hafa í vörslu sinni meira magn steralyfja. Lögregla lagði hald á þau um mánuði eftir að fyrsta málið kom upp. Einnig fundust á heimili hans tæp tíu grömm af kókaíni og nokkrar kannabisplöntur.
Athygli vekur að annar þeirra manna sem ákærðir eru fyrir umfangsmesta ákæruliðinn kemur við sögu í öðru máli sem upp kom fáeinum dögum áður ofangreint skip lagði að bryggju. Honum er gert að sök, ásamt þremur öðrum, að hafa haft í vörslu sinni 255 grömm af kókaíni ætluðu til söludreifingar en lögregla fann efnin í lok september.
Auk þess er hann ákærður, ásamt öðrum, fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa haft 659 grömm af amfetamíni í vörslu sinni í júní sl.
Fleiri liðir eru í ákærunni en minni og varða vörslu fíkniefna, oftast nokkur grömm af kókaíni.