Neituðu sök að mestu leyti

Mennirnir tveir sem gefið er að sök að hafa flutt inn til landsins með vörugámi tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur, rúm tvö hundruð grömm af kókaíni auk steralyfja komu fyrir dómara í morgun. Annar þeirra neitaði staðfastlega sök en hinn sagðist ekki hafa vitað af vímuefnunum, aðeins sterum. Samkvæmt ákæru fluttu mennirnir efnin til landsins frá Rotterdam í vörugámi sem kom til landsins 10. október sl. Fjórir aðrir eru ákærðir í málinu en fyrir aðrar sakir.

Sakborningar mættu flestir til þingfestingar málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Meðal annars Geir Hlöðver Ericsson og Sævar Sverrisson sem ákærðir eru fyrir innflutning ofangreindra efna. Geir Hlöðver neitaði alfarið sök hvað þann lið varðaði en Sævar lýsti sig sekan um innflutning á steralyfjum. Hann sagðist hins vegar ekki hafa haft hugmynd um að fíkniefni væru einnig í gámnum.

Báðir eru þeir ákærðir fyrir aðrar sakir í málinu. Sævar játaði vörslur á einu grammi af kókaíni sem hann vísaði lögreglu á við húsleit. Hann sagði að um væri að ræða eldgamalt kókaín sem hann sjálfur átti.

Geir Hlöðver kemur hins vegar við sögu í fleiri ákæruliðum. Meðal annars játaði hann vörslur á 659 grömmum af amfetamíni sem fundust í júní á síðasta ári og einnig vörslur á rúmum átta grömmum af maríujúana. Hann neitaði hins vegar aðild að máli þar sem lögregla fann 255 grömm af kókaíni. Þrír aðrir eru ákærðir fyrir sama brot, einn sakborningur mætti ekki fyrir dóminn, annar neitaði sök en sá þriðji játaði sök.

Einnig er ákært fyrir vörslur mikils magns steralyfja en sá sem ákærður er í þeim lið mætti ekki fyrir dóminn vegna veikinda.

Framhald málsins verður þannig að fyrirtaka fer fram 26. janúar nk. og eiga þá þeir sakborningar sem ekki mættu í morgun að taka afstöðu til sakarefna. Þá verður einnig tekin ákvörðun um hvort verjendur skila inn greinargerðum. Ef svo verður mun þinghaldi bætt við en annars fer aðalmeðferð í málinu fram 16. febrúar nk. og ætti að standa í einn dag.

Dómari spurði ákæruvaldið aðeins út í vitnalista og virtist undrandi á því að vitnin væru að megninu til lögreglumenn. Ákæruvaldið staðfesti það en sagði vitnisburð þeirra m.a. geta skýrt rannsóknaraðferðir. Féllst dómari á að gefa hverju vitni um tíu mínútur til skýrslugjafar fyrir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert