Aðalmeðferð frestað í Straumsvíkurmáli

Sævar Sverrisson, einn sakborninga í málinu, og verjandi hans, Ómar …
Sævar Sverrisson, einn sakborninga í málinu, og verjandi hans, Ómar Örn Bjarnþórsson héraðsdómslögmaður. Sigurgeir Sigurðsson

Aðalmeðferð í stærsta fíkniefnamáli sem upp kom á síðasta ári, svonefndu Straumsvíkurmáli, hefur verið frestað, en hún átti að fara fram næstkomandi fimmtudag og föstudag. Þetta kom fram við fyrirtöku við Héraðsdóm Reykjavíkur fyrr í morgun. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin geti farið fram 28. febrúar næstkomandi.

Sex eru ákærðir í málinu, ákæran er í nokkrum liðum og þáttur sakborninga afar mismunandi. Þá hefur þáttur eins sakbornings verið klofinn frá málinu og verður rekinn í sérstöku máli, þar sem óskað var eftir því að fram færi sakhæfismat á viðkomandi.

Stærsti ákæruliðurinn er á hendur tveimur karlmönnum, Geir Hlöðveri Ericssyni og Sævari Sverrissyni, sem gefið er að sök að hafa flutt inn til landsins tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin fluttu mennirnir til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október. Lögregla lagði hald á efnin samdægurs.

Gæsluvarðhald yfir Sævari rennur út sama dag og aðalmeðferðin er fyrirhuguð, en telja verður líklegt að gerð verði krafa um framlengingu á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert