Skipulagt í gegnum Skype

Geir Hlöðver Ericsson kemur fyrir dóminn í dag.
Geir Hlöðver Ericsson kemur fyrir dóminn í dag. Morgunblaðið/Ómar

Straumsvíkurmálið svonefnda gaf af sér tvö önnur nokkuð stór fíkniefnamál. Í öðru þeirra eru fjórir ákærðir en það komst upp þegar lögreglumenn heyrðu samtal milli manna á Skype. Hleruðu þeir þá húsnæði eins sakborninga, Geirs Hlöðvers Ericssonar, og komust á snoðir um fíkniefnamálið.

Aðgerðir lögreglu í umræddu máli, Straumsvíkurmáli, voru afar umfangsmiklar. Hleraðir voru símar Geirs Hlöðvers og húsnæði um sex mánaða tímabil. Einnig fylgdust lögreglumenn með ferðum Geirs Hlöðvers og þannig var staðan 29. september.

„Vissir þú að það væru þarna fíkniefni í spilinu?“ spurði Hulda Elsa Björgvinsdóttir, saksóknari, og ekki stóð á svari Geirs Hlöðvers: „Hugsanlega, en það voru ekki mín fíkniefni.“

Geir Hlöðver er ásamt þremur öðrum ákærður í þessum lið. Þar af er ein kona sem ákærð er fyrir að veita 255,17 grömmum af kókaíni móttöku á Seltjarnarnesi og koma þeim til Geirs Hlöðvers og annars manns. Geir og umræddur maður eru ákærðir fyrir að sækja kókaínið, greiða fyrir það að hluta og aka með efnin að heimili þriðja manns. Þar skildu þeir 243,87 grömm eftir en héldu eftir 11,30 grömmum. Öll voru þau handtekin umrætt kvöld. 

Þetta var skýrt þannig fyrir dómi að fylgst var með ferðum Geirs Hlöðvers, og heimili hans hlerað. Þannig gátu lögreglumenn fylgst með samtali hans á Skype við útlenskan karlmann en í því var talað um fíkniefnaviðskipti. Geir Hlöðver var spurður út í samtalið fyrir dómi í dag, en hann neitar sök í málinu. Hann sagðist hafa rætt við manninn fyrir félaga sinn - sem einnig er ákærður og játaði sök - en hann væri slæmur í ensku.

Þegar Geir og félagi hans lögðu af stað áleiðis á Seltjarnarnes vissu þeir ekki að þeir voru „skyggðir“ af lögreglumönnum. Um var að ræða alla vega tvo bíla sem fylgdu þeim eftir og fylgdust með öllu því sem þeir gerðu.

Lögreglumennirnir handtóku Geir og félaga hans þegar þeir komu aftur heim til Geirs. Þeir fóru einnig á þá staði sem þeir komu við á og handtóku þar þá sem komu að málinu.

Hulda Elsa spurði Geir Hlöðver út í þennan þátt í morgun. Hann sagðist hafa verið farþegi í bílnum, félagi hans hefði stokkið út á Seltjarnarnesi og aftur á öðrum tilteknum stað. Þegar þeir svo komu aftur heim til hans hafi þeir verið handteknir. Þá var hann spurður hvort hann hefði ekki átt aðild að málinu, og hvort hann hefði ekki vitað hvað væri þarna í gangi. „Ég átti enga aðild og þessi efni voru ekki í minni vörslu. Ég var ekki að velta fyrir mér hvað var þarna í gangi og [félaginn] var ekki að veifa þessu framan í mig.“

Fyrir dóminn kom einnig burðardýrið í málinu en hann fór með kókaínið að húsnæðinu á Seltjarnarnesi. Hann afplánar dóm fyrir innflutninginn hér á landi. Sá sagðist ekkert geta gefið upp um hver sendi hann eða hvaða tengilið hann hafði hér á landi. Fyrirmæli hans voru aðeins á þá leið að fara að tilteknu húsi á Seltjarnarnesi, sem og hann gerði.

Burðardýrið var handtekið á hóteli í Reykjavík og hafði þá ekki skilað af sér öllum pakkningunum af kókaíni. Þegar upp var staðið reyndist magn kókaínsins nær fjögur hundruð grömmum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert