Straumsvíkurmálinu svonefnda var frestað á ellefta tímanum í morgun eftir að verjandi annars aðalmannsins krafðist þess að vitni búsett í Hollandi kæmi fyrir dóminn, en ákæruvaldið sagði að tilraunir hafi verið gerðar til þess en vitnið hafi neitað að koma til Íslands. Kveðinn verður upp úrskurður vegna ágreiningsefnisins á mánudaginn næsta.
Um er að ræða manninn sem afhenti Sævari Sverrissyni kassa með fíkniefnunum sem síðar rötuðu í gáminn sem sendur var til Íslands. Hann hafði við rannsókn málsins réttarstöðu sakbornings og tekin var skýrsla af honum í Hollandi. Til stóð að hann gæfi skýrslu í málinu sem vitni en maðurinn hefur neitað að koma til landsins.
Sökum þessa hugðist ákæruvaldið taka af manninum símaskýrslu en því mótmælti Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Geirs Hlöðvers Ericssonar, en Geir er ákærður fyrir að hafa skipulagt fíkniefnainnflutninginn.
Í munnlegum málflutningi um kröfu sína sagði Vilhjálmur að umræddur maður væri lykilvitni í málinu og geti upplýst um það hver fékk hann til verksins, þ.e. til að afhenda Sævari fíkniefnin í Hollandi. Því sé nauðsynlegt að hann gefi skýrslu fyrir dómi en ekki aðeins í gegnum síma.
Hulda Elsa Björgvinsdóttir, saksóknari í málinu, tók undir að framburður mannsins gæti skipt miklu í málinu og að hún myndi gjarnan vilja fá hann fyrir dóminn. Hins vegar hafi verið haft samband við hann í þeim tilgangi en hann neitað, og ekki gefið neinar sérstakar ástæður fyrir því. Maðurinn kvaðst hins vegar tilbúinn að gefa skýrslu í gegnum síma.
Þá sagði Hulda Elsa að ákæruvaldið hefði engin úrræði til að þvinga manninn til að koma fyrir dóminn. Ekki sé hægt að leggja það fyrir ákæruvaldið í Hollandi að birta honum kvaðningu og fylgja henni eftir.
Vilhjálmur benti þá á, að umræddur maður hefði enn réttarstöðu sakbornings í málinu og því væri hægt að fara fram á framsal hans til Íslands.
Úrskurður verður kveðinn upp á mánudaginn næstkomandi.
Sökum þessa er ljóst að málið mun tefjast um töluverðan tíma, sama hver úrskurðarorð verða. Annað hvort þarf að fara fram á framsal mannsins þá þegar eða að úrskurðurinn verður kærður til Hæstaréttar til endanlegrar úrslausnar.