Sterk fíkniefni í Straumsvíkurmáli

Verjendur í Straumsvíkurmálinu.
Verjendur í Straumsvíkurmálinu. Morgunblaðið/Andri Karl

Fíkniefnin sem fundust í gámi 10. október sl. í Straumsvík voru afar sterk, ef marka má matsgerð prófessors í eiturefnafræði. Í öllum sýnum amfetamíns, kókaíns og MDMA-töflum var styrkurinn yfir meðaltali áranna 2006-2010, stundum töluvert hærri.

Stærsti ákæruliðurinn í málinu er á hendur tveimur karlmönnum, Geir Hlöðveri Ericssyni og Sævari Sverrissyni, sem gefið er að sök að hafa flutt inn til landsins tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin fluttu mennirnir til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október. Lögregla lagði hald á efnin samdægurs.

Jakob Kristinsson prófessor í eiturefnafræði var spurður út í matsgerð sína um efnin sem fundust við framhald aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þar kom fram að styrkur amfetamínsbasa var 34% sem jafngildir um fjörutíu prósent amfetamínsúlfati. Meðalstyrkur amfetamínsýna á árunum 2006-2010 var hins vegar um sautján prósent, en miðgildi sýna 9,3%.

Af því má ráða, að hægt hefði verið að blanda efnið töluvert með íblöndunarefnum og fá út mun meira magn til að selja í neysluskömmtum.

Sömu sögu var að segja af kókaíninu sem fannst í gámnum, en styrkur þess er um 61% sem jafngildir um 68% kókaínklóríðs. Styrkur kókaíns á árunum 2006-2010 var hins vegar um fimmtíu prósent.

Einnig fundust í gámnum MDMA-töflur, svonefndar e-töflur, sem voru sterkari en fundist hafa á undanförnum árum.

Aðalmeðferðin heldur áfram, en óvíst er talið að henni ljúki í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert