Dómari í Straumsvíkurmálinu svokallaða hafnaði í morgun kröfu eins verjanda í málinu um að vitni í málinu þyrfti að koma fyrir dóminn. Dómarinn taldi nægjanlegt að tekin yrði skýrsla af vitninu í gegnum síma.
Um er að ræða manninn sem afhenti Sævari Sverrissyni kassa með fíkniefnunum sem síðar rötuðu í gáminn sem sendur var til Íslands. Hann hafði við rannsókn málsins réttarstöðu sakbornings og tekin var skýrsla af honum í Hollandi. Til stóð að hann gæfi skýrslu í málinu sem vitni en maðurinn hefur neitað að koma til landsins.
Sökum þessa hugðist ákæruvaldið taka af manninum símaskýrslu en því mótmælti Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Geirs Hlöðvers Ericssonar, en Geir er ákærður fyrir að hafa skipulagt fíkniefnainnflutninginn.
Dómarinn féllst ekki á þessa kröfu, en taldi nægjanlegt að hann gæfi símaskýrslu eins og hann hafði boðist til að gera. Ekki liggur fyrir hvort þessum úrskurði verður skotið til Hæstaréttar.
Sex eru ákærðir í þessu máli og kröfðust verjendur tveggja að þeirra mál yrði klofið frá málinu og dæmt sérstaklega, með þeim rökum að þáttur þeirra í málinu væri mjög lítill. Dómari féllst ekki á þetta.
Næst verður réttað í málinu 30. apríl og er fyrirhugað að ljúka málflutningi 2. maí.