„Þetta er ekki boðlegt“

Verjendur og Geir Hlöðver fyrir aftan þá í dómsal.
Verjendur og Geir Hlöðver fyrir aftan þá í dómsal. Morgunblaðið/Andri Karl

Enn eru það hljóðupptökur sem vefjast fyrir mönnum í Straumsvíkurmálinu. Að þessu sinni tekur dómari undir með sakborningum sem ekki þekkja eigin raddir eftir húshleranir lögreglu. „Það er svakalegt að bjóða upp á þetta svona,“ sagði Guðjón Marteinsson dómari málsins.

Eins og fram hefur komið á mbl.is snýr málið aðallega að innflutningi á fíkniefnum frá Rotterdam í Hollandi. Um var að ræða tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin fundust í vörugámi skips sem lagðist að bryggju í Straumsvík 10. október síðastliðinn.

Tveir aðalmenn eru ákærðir í málinu, Geir Hlöðver Ericsson og Sævar Sverrisson. Lögregla hleraði síma Geirs Hlöðvers og heimili frá vormánuðum 2011 og fram á haust.

Málið frestaðist á sínum tíma þar sem verjendur fóru fram á aðgang að hljóðupptökunum. Gerð var málamiðlun um að þeir fengju að hlusta á þær á lögreglustöð.

Við aðalmeðferðina í morgun hefur ákæruvaldið spilað valda búta og spurt sakborninga út í einstaka þætti sem nefndir eru á upptökunum.

Afar slæm gæði eru hins vegar á upptökunum og segjast sakborningar sjaldnast þekkja raddir sínar og alls ekki um hvað er talað í hvert sinn. Verjandi Geirs gagnrýndi þetta og sagði ekki þýða að lögreglumenn geti skrifað upp heilu málin og búið til sönnunargögn.

Dómari málsins sagði verjandann geta farið yfir það við málflutning en tók þó fram að hann þurfi að taka undir með verjandanum að nokkru leyti. „Þetta er ekki boðlegt,“ sagði Guðjón Marteinsson dómari málsins sem þó heimilaði að áfram yrði farið yfir upptökurnar.

Aðalmeðferð heldur áfram og eftir að farið verður yfir allar upptökurnar fer fram málflutningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert