Þungra dóma krafist í Straumsvíkurmáli

Verjendur við aðalmeðferð í Straumsvíkurmálinu í dag.
Verjendur við aðalmeðferð í Straumsvíkurmálinu í dag. mbl.is/Andri Karl

Ákæruvaldið krefst tólf og tíu ára fangelsis yfir tveimur aðalmönnum í Straumsvíkurmálinu svonefnda. Munnlegur málflutningur hófst eftir hádegið við Héraðsdóm Reykjavíkur og er reiknað með því að hann klárist í dag.

Í málinu er Sævar Sverrisson ákærður ásamt Geir Hlöðveri Ericssyni fyrir að flytja inn til landsins tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin fluttu mennirnir til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október. Lögregla lagði hald á efnin samdægurs.

Sævar játaði að hafa flutt efnin til landsins en að hann hafi talið að um stera væri að ræða. Geir Hlöðver neitaði hins vegar sök.

Meðal þess sem fram kom í máli saksóknara er að leggja verði til grundvallar játningu Sævars um málsatvik. Þá hafi framburður Geirs Hlöðvers verið afar ótrúverðugur frá fyrstu skýrslutöku.

Hvað varðar það, að Sævar hafi ekki vitað af fíkniefnum en aðeins sterum benti saksóknari á alla þá leynd sem hvíldi yfir samskiptum Geirs og Sævars. Þeir hafi aðeins átt símasamskipti í gegnum eitt símanúmer, þeir hafi haldið leynifundi og að mati ákæruvaldsins hafi þeir verið að ræða fíkniefni í símtölum.

Þá benti saksóknari á að Sævar hafi fengið fíkniefni hjá Geir, hafi útvegað honum mjólkursykri til að blanda við fíkniefni. Því sé framburður Sævars um að hann hafi ekki vitað af fíkniefnum í gámnum ótrúverðugar.

Aðalmeðferðin heldur áfram og næst taka við verjendur sakborninga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert