Aðeins sakfelldir fyrir sterana

Lögmenn í Straumsvíkurmálinu.
Lögmenn í Straumsvíkurmálinu. mbl.is/Andri Karl

Sævar Sverrisson og Geir Hlöðver Ericsson eru báðir sakfelldir í Straumsvíkurmálinu svonefnda fyrir innflutning á sterum. Dómurinn taldi hins vegar ekki sannað að Geir Hlöðver hafi staðið að innflutningi fíkniefnanna sem voru í sama gámi og sterarnir.

Í dóminum segir að gögn málsins, framburður og vitnisburður fyrir dómi séu ekki þannig að þau dugi til að sakfella Geir Hlöðver að þessu leyti gegn eindreginni neitun hans. Þótt Geir Hlöðver hafi ásamt Sævari verið sakfelldur fyrir innflutning steralyfjanna leiði það ekki sjálfkrafa til þess að unnt sé að slá því föstu að hann hafi einnig staðið á bak við innflutning fíkniefnanna þar sem ekkert liggi fyrir um það. „Það er mat dómsins að ekki hafi tekist að upplýsa málið að þessu leyti.“

Þá er talið ósannað að Sævar hafi skipulagt fíkniefnainnflutninginn og er hann sýknaður af þeim þætti. Hann hafi hins vegar tekið að sér að koma kössunum til landsins og vissi að í þeim voru steralyf. „Þetta gerði hann þrátt fyrir að honum hafi brugðið ytra er í ljós kom að kassarnir voru þrír eins og hann bar. Þótt hugur hans hafi ekki staðið til þess að flytja fíkniefni til landsins ber hann refsiábyrgð á flutningi efnanna til landsins í samræmi við ákæruna.“

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Sævar hefur ekkert gerst brotlegur við lög áður. Hann játaði hreinskilnislega og vissi ekki um fíkniefnin. Ásetningsstig hafi því verið lágt. Hann var því dæmdur í fangelsi í 4 ár og 6 mánuði.

Geir Hlöðver var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innflutning á sterum og vörslur 659 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Hann á að baki langan sakarferil sem hafði áhrif á refsinguna.

Þrátt fyrir að lögregla hafi hlerað heimili Geirs Hlöðvers mánuðum saman taldi dómurinn að ekkert hafi komið fram sem renni stoðum undir sakargiftir í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert