Hópveikindi litin alvarlegum augum

Farþegar fara um borð í Herjólf.
Farþegar fara um borð í Herjólf. mbl.is/Árni Sæberg

„Trúnaðarlæknir okkar er í sambandi við heilsugæsluna í Vestmannaeyjum og þau munu vinna í samstarfi að því að komast að því hvað hrjáir þetta fólk sem veikist allt svona skyndilega,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips. Siglt verður á áætlun í dag þrátt fyrir veikindi undirmanna.

Undirmenn á Herjólfi, tvær þernur, bátsmaður og tveir hásetar, hringdu eitt af öðru kl. 7:30 í morgun og tilkynntu veikindi sín og forföll frá vinnu. Var því útlit fyrir að Herjólfur myndi ekki sigla, en Eimskipafélagið brást við með því að manna skipið staðgenglum.

„Það eru landverkamenn hjá Eimskipafélaginu sem hlaupa í skarðið og munu sigla samkvæmt áætlun í dag,“ segir Ólafur.

Skipið siglir ekki ólöglega

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, lýsti í samtali við mbl.is efasemdum um að staðgenglarnir hefðu réttindi til að ganga í störf áhafnar um borð í Herjólfi. Ólafur segir það alveg kristaltært að lögum sé fylgt.

„Þeir ganga í störf starfsfólks í ferðaþjónustu með sértæk réttindi til að starfa um borð í ferju og við leysum það, menn fá þær undanþágur sem þarf. Við verðum að manna skipið samkvæmt mönnunarskírteini, þannig að það hafi haffærnisréttindi með þessa farþega, og við siglum skipinu ekki ólöglega, það er alveg klárt mál.“

Frá Samgöngustofu fengust þær upplýsingar að útgerðirnar sæju sjálfar um að lögskrá áhafnir sínar jafnóðum í rafrænan gagnagrunn. „Það er í raun alveg eðlilegt að það séu mannabreytingar frá degi til dags hjá skipi sem er í stöðugum siglingum, eins og Herjólfur,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi hjá Samgöngustofu.

„Lýsir sér frekar sem faraldur“

Herjólfur mun því sigla samkvæmt áætlun í dag, tvær ferðir frá Vestmannaeyjum og tvær frá Landeyjahöfn. Síðasta ferðin er kl. 19:15 frá Landeyjahöfn og er það fyrsta kvöldsiglingin síðan yfirvinnubann hófst 5. mars.

Aðspurður hvort búast megi við mönnunarvanda aftur á morgun segir Ólafur erfitt að segja til um það, en hópveikindi um borð í farþegaferju séu ekkert grín.

„Það er náttúrlega alvarlegt mál þegar margir á sama vinnustaðnum veikjast á sama tíma og við verðum að komast til botns í því hvað þetta getur verið. Þetta lýsir sér frekar sem faraldur en eitthvað annað og læknar hljóta að skoða það mjög alvarlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert