Þrefalt fleiri sækja um vernd

Flóttamenn.
Flóttamenn. AFP

Í aprílmánuði sóttu 42 einstaklingar frá 17 löndum um vernd á Íslandi. Heildarfjöldi umsækjenda á árinu er þar með orðinn 177 sem er þrisvar sinnum meiri fjöldi en á sama tímabili árið 2015. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Útlendingastofnun.

Flestir umsækjendur í apríl, eða fimm talsins, komu frá Makedóníu og fimm frá Írak en alls komu 29% umsækjenda frá löndum Balkanskagans. 79% umsækjenda voru karlkyns og 79% umsækjenda fullorðnir. Upplýsingarnar má finna á vef Útlendingastofnunar.

Niðurstaða fékkst í 39 mál í aprílmánuði. 25 mál voru tekin til efnislegrar meðferðar, 13 mál voru afgreidd með endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og einn umsækjandi hafði þegar fengið vernd annars staðar. Af þeim 25 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk sjö málum með ákvörðun um veitingu verndar, fimm með veitingu viðbótarverndar og 13 málum lauk með synjun. 15 efnismál voru afgreidd á grundvelli forgangsmeðferðar í apríl.

Umsækjendur sem fengu vernd í mánuðinum komu frá Íran, Palestínu, Sómalíu og Sýrlandi en synjun fengu Albanir, Makedóníumenn og Kanadamaður. Nánari upplýsingar um lyktir mála eftir þjóðerni má sjá vef Útlendingastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert