Andlát: Gunnar Sólnes hæstaréttarlögmaður

Gunnar Sólnes.
Gunnar Sólnes.

Gunnar Sólnes hæstaréttarlögmaður andaðist 6. júní sl. 76 ára að aldri.

Gunnar fæddist á Akureyri 12. mars 1940. Foreldrar hans voru Jón G. Sólnes, útibússtjóri Landsbanka Íslands á Akureyri og alþingismaður, f. 30.9. 1910, d. 8.6. 1986, og Ingiríður Pálsdóttir húsmóðir, f. 12.8. 1910, d. 11.8. 2003.

Gunnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1960 og varð cand. juris frá Háskóla Íslands 1968. Ári síðar varð hann héraðsdómslögmaður og hæstaréttarlögmaður 1977. Hann starfaði sem ritari hjá fjárveitinganefnd Alþingis 1960 til 1967, sinnti síðan ýmsum lögmannsstörfum, rak eigin lögfræðiskrifstofu á Akureyri frá 1970 og Lögmannsstofuna hf. ásamt bróður sínum, Jóni Kr. Sólnes hrl., og Árna Pálssyni hrl. frá 1989. Frá 2008 til dauðadags starfaði hann sem hæstaréttarlögmaður hjá Pacta-lögmönnum, Akureyri. Þá var hann ræðismaður Frakka á Akureyri um langt skeið og sæmdur heiðursorðu fyrir störf sín í þágu Frakklands.

Hann var formaður Golfklúbbs Akureyrar 1971 til 1974 og 1977 til 1979, sat í stjórn Íslendings hf. 1978 til 1982, í stjórn Akurs hf. 1975 til 1983, og í varastjórn Lögmannafélags Íslands 1979 til 1980. Gunnar var Íslandsmeistari í golfi 1961 og 1967. Hann var sæmdur gullmerki Íþróttasambands Íslands 1985, var heiðursfélagi GA og var sæmdur gullkrossinum, æðsta heiðursmerki Golfsambands Íslands, árið 2005.

Eiginkona Gunnars er Margrét Sigríður Kristinsdóttir, hússtjórnarkennari og fv. kennslustjóri við Verkmenntaskólann á Akureyri, f. 6.5. 1937. Hún er dóttir Kristins Vilhjálmssonar, vélstjóra í Kópavogi og síðar á Akureyri, f. 29.11. 1904, d. 1.12.1991, og konu hans, Helgu Jónsdóttur húsfreyju, f. 17.11.1905, d. 2.2. 1963. Fósturbörn Gunnars, börn Margrétar af fyrra hjónabandi, eru: Helga Kristín Magnúsdóttir og Hulda Magnúsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert