Keppendur fá ágætishjólreiðaveður

Keppendur í WOW Cyclothon.
Keppendur í WOW Cyclothon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Keppendur í WOW Cyclothon munu fá ágætishjólreiðaveður í keppninni að sögn Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Keppendur í einstaklingskeppni leggja af stað á morgun klukkan 17 frá Egilshöll, en liðakeppni hefst á miðvikudag. 

Keppendur hjóla hring­inn í kring­um Ísland, um Hval­fjörð og yfir Öxi og koma í mark á Krísuvíkurvegi á föstudag. Metþátt­taka er í ár og hafa sjö einstaklingar og tæp­lega 1.200 þátt­tak­end­ur í 123 liðum skráð sig til leiks. 

„Veðrið virðist ekki ætla að spilla neitt fyrir,“ segir Haraldur. Hann segir veður á morgun verða svipað því sem er í dag; þurrt og bjart vestan til en mögulega verði lítils háttar væta á Austurlandi. Hugsanlega verði einhver mótvindur hjá keppendum á leiðinni norður en hann verði frekar hægur. Hiti verður á bilinu 7 til 17 stig á landinu næstu daga.

Litlar breytingar verða í veðrinu á miðvikudag að sögn Haraldar, en lítils háttar væta verði áfram fyrir austan. Þrátt fyrir það verði ágætisveður. Á fimmtudag sé spáð skúrum á landinu en þá verði vindur kominn í rólega sunnanátt. Svipað útlit sé fyrir föstudaginn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Næsta sólarhringinn:
Austan- og norðaustanátt, víða 3–8 m/s og skýjað með köflum. Smáskúrir A-lands á morgun, en bjart veður vestan til á landinu. Hiti 7 til 17 stig, kaldast á annesjum fyrir norðan og austan.

Á miðvikudag:
Austlæg eða breytileg átt, 3–8 m/s. Súld eða lítils háttar rigning A-lands. Annars bjart með köflum, en líkur á skúrum síðdegis. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast V-til.

Á fimmtudag og föstudag:
Suðlæg átt og víða smáskúrir. Hiti yfirleitt 10 til 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert