Rannsóknarnefnd flugslysa tók að eigin frumkvæði ákvörðun um að rannsaka veikindi flugliða um borð í flugvélum Icelandair eftir að flugliði varð óvinnufær um borð vegna veikinda í febrúar, að því er fréttastofa RÚV greindi frá nú í kvöld.
Síðan þá eru tvö aðskilin atvik sögð hafa komið á borð rannsóknarnefndar, bæði í þessum mánuði. Í annað skiptið hafi margir flugliðar um borð veikst og rannsóknarnefndin tekið á móti flugvélinni í Keflavík til rannsóknar.
Axel F. Sigurðsson, trúnaðarlæknir Icelandair, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að veikindin ættu sér sennilega margþættar skýringar og misjafnt hve lengi fólk sé að jafna sig. „Í sumum tilfellum er viðkomandi búin(n) að jafna sig þegar vélin er komin á áfangastað, en í öðrum tilfellum hafa einkennin varað lengur,“ segir hann. Dæmi séu um að fólk hafi verið tekið í læknisskoðun og blóðprufu strax eftir flug hafi einkennin enn verið til staðar. „Í engu tilfellanna hefur fundist skýring á sjúkdómseinkennunum.“