KÍ styður ekki lífeyrisfrumvarp

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra undirrituðu samkomulag við Kennarasamband Íslands, Bandalag háskólamanna …
Forsætisráðherra og fjármálaráðherra undirrituðu samkomulag við Kennarasamband Íslands, Bandalag háskólamanna og BSRB um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Kennarasambands Íslands treystir sér ekki til þess að styðja nýtt frumvarp um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna sem kynnt var í síðasta mánuði. Frumvarpið kemur í framhaldi af samkomulagi um að búa til eitt nýtt samræmt lífeyriskerfi fyr­ir allt launa­fólk á Íslandi, bæði á op­in­ber­um og al­menn­um vinnu­markaði.

Segir í tilkynningu frá Kennarasambandinu að stjórnin telji frumvarpið sem nú sé til umfjöllunar á Alþingi skerða réttindi félagsmanna þvert á undirritað samkomulag um annað.

Þann 19. september skrifuðu Kennarasamband Íslands, Bandalag háskólamanna og BSRB undir samkomulag um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Fram kemur í samkomulaginu að réttindi núverandi sjóðsfélaga skuli vera jafnverðmæt fyrir og eftir breytingar á skipan lífeyrismála og að laun á almennum og opinberum vinnumarkaði verði jöfnuð.

Daginn eftir var lagt fyrir Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Segir í tilkynningunni að nú þegar frumvarpið sé til umfjöllunar á Alþingi hafi komið í ljós ný túlkun fulltrúa ríkisins. „Af óskiljanlegum ástæðum og án málefnalegra sjónarmiða ætla fulltrúar ríkisins að snúa út úr samkomulaginu svo réttindi sjóðsfélaga verði í reynd ekki tryggð í frumvarpinu,“ segir í tilkynningunni.

Segist stjórnin því ekki treysta sér til að styðja nýtt frumvarp, enda telji hún lagafrumvarp sem nú er til umfjöllunar á Alþingi skerða réttindi félagsmanna þvert á undirritað samkomulag um annað.

Um leið skorar stjórn Kennarasambandsins á alþingismenn að hleypa frumvarpinu ekki í gegnum Alþingi í núverandi mynd. Þegar þessi staða var komin upp fór stjórn Kennarasambandsins fram á að málinu yrði frestað fram yfir kosningar. Með því gæfist betri tími til að vinna það áfram og tryggja að markmið og forsendur samkomulagsins nái að fullu fram að ganga.

Segir í tilkynningunni að þessari tillögu hafi fulltrúar stjórnvalda hafnað nú í morgun. Stjórn Kennarasambandsins fordæmir þau vinnubrögð sem fulltrúar stjórnvalda hafi sýnt síðustu daga enda liggur nú fyrir að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli KÍ og ríkisvaldsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert