BSRB gagnrýnir lagafrumvarp

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn BSRB telur að frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins endurspegli ekki samkomulag sem heildarsamtök opinberra starfsmanna og fulltrúar ríkis og sveitarfélaga undirrituðu 19. september síðastliðinn.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá BSRB.

„Samkvæmt samkomulaginu eiga réttindi núverandi sjóðfélaga að vera jafnverðmæt fyrir og eftir breytingarnar. Frumvarpið tryggir ekki að svo sé,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur fram að BSRB muni leggja til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu í umsögn sem send verður fjárlaganefnd Alþingis á morgun og kynnt nánar af fulltrúum bandalagsins á fundi með nefndinni. Ef ekki verða gerðar þær breytingar sem bandalagið leggur fram í umsögn sinni er ljóst að BSRB mun ekki styðja frumvarpið.

Verði ekki fallist á athugasemdir bandalagsins fer stjórn þess fram á að Alþingi afgreiði ekki frumvarpið í þeirri mynd sem það er núna.

Tillögur BSRB að breytingum á frumvarpinu verða lagðar fram í umsögn bandalagsins á morgun. Efnislega eru þær eftirfarandi:

Tryggja þarf að réttindi sjóðfélaga í A-deild LSR verði jafnverðmæt eftir breytingar á skipan lífeyrismála. Skýrt þarf að vera að þar sé átt við réttindi þeirra sem eru að greiða í sjóðinn eða hafa greitt í sjóðinn, sem og þeirra sem hafa hafið töku lífeyris.

Tryggja þarf að hafi sjóðfélagi unnið sér inn rétt til lífeyrisauka haldist sá réttur þrátt fyrir að viðkomandi skipti um starf, haldi hann áfram aðild að A-deild LSR.

Útlista þarf nákvæmlega hvernig iðgjaldagreiðslum annarra launagreiðenda en ríkis og sveitarfélaga verður háttað eftir breytingar.

Kveða þarf skýrt á um að ef sú upphæð sem sett hefur verið í varúðarsjóð dugi ekki til, sé það hlutverk opinberra launagreiðenda að bregðast við.

Stjórn BSRB lýsir yfir vonbrigðum með að ekki sé farið eftir því samkomulagi sem undirritað hefur verið við vinnslu frumvarpsins. Stjórnin skorar á þingmenn að gera nauðsynlegar breytingar til að verja áunnin réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka