Frumvarpið ekki eins og um var samið

Samkomulagið var undirritað fyrr í haust. Nú segja samningsaðilar að …
Samkomulagið var undirritað fyrr í haust. Nú segja samningsaðilar að frumvarpið sé ekki í samræmi við það. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandalag háskólamanna segir lagafrumvarp um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ekki í samræmi við nýtt samkomulag bandalaga opinberra starfsmanna við ríkið og sveitarfélög. Frumvarpið átti þó að byggja á umræddu samkomulagi.

Í tilkynningu frá BHM segir að nauðsynlegt sé að breyta frumvarpinu til að tryggja réttindi allra núverandi sjóðfélaga í A-deild sjóðsins.

Hefur bandalagið sent fjárlaganefnd Alþingis umsögn um frumvarpið, þar sem gerðar eru athugasemdir við það og lagðar fram tillögur um breytingar á því.

Frumvarpið byggir á nýlegu samkomulagi milli annars vegar bandalaga opinberra starfsmanna og hins vegar ríkis og sveitarfélaga um framtíðarskipan lífeyrismála á opinberum vinnumarkaði.

Frétt mbl.is: Eitt lífeyriskerfi fyrir allt launafólk

BHM gerir þrjár meginathugasemdir.
BHM gerir þrjár meginathugasemdir. mbl.is/Styrmir Kári

Frumvarpið tryggi ekki réttindi allra

Athugasemdir BHM eru í þremur liðum og lúta í meginatriðum að því að frumvarpið sé ekki fyllilega í samræmi við fyrrnefnt samkomulag. Nánar tiltekið telur BHM að frumvarpið tryggi ekki réttindi allra núverandi sjóðfélaga í A-deild sjóðsins, eins og samkomulagið kveði á um.

„Í fyrsta lagi telur BHM mikilvægt að mælt sé fyrir um það í frumvarpinu að samþykktir LSR skuli kveða á um sömu og jafngóð réttindi sjóðfélaga og gert er í núgildandi lögum um sjóðinn. Í umsögn bandalagsins er lögð fram breytingartillaga við frumvarpið sem miðar að þessu.

Í öðru lagi telur BHM að frumvarpið tryggi ekki öllum núverandi sjóðfélögum rétt til lífeyrisauka óháð launagreiðanda, eins og samkomulagið gerir ráð fyrir. Í umsögninni er lögð fram breytingartillaga við frumvarpið til að tryggja þennan rétt.

Í þriðja lagi bendir BHM á að frumvarpið tryggi ekki að núverandi sjóðfélagar geti fært sig milli vinnumarkaða án þess að það hafi áhrif á rétt þeirra til lífeyrisauka. Bandalagið leggur til breytingu á frumvarpinu til að tryggja þennan sveigjanleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka