Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands, segir þau ummæli ómakleg sem höfð eru eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í Morgunblaðinu í dag. Í samtali við mbl.is segir Þórður að sér finnist sem Bjarni vegi að sérfræðingum sambandsins.
Frétt mbl.is: Stefnir samstarfi í óvissu
Var Bjarni til viðtals um nýtt samkomulag samtaka opinberra starfsmanna við ríkið og sveitarfélög og frumvarp byggt á því, en bæði KÍ og BSRB hafa lýst því yfir að frumvarp ráðherrans sé þvert á það samkomulag, þótt fulls samræmis hafi átt að gæta.
„Ríki og sveitarfélög eru sammála um að frumvarpið sé í samræmi við samkomulagið. Mér virðist sem hér sé verið að tefla fram nýjum samningskröfum,“ sagði Bjarni og bætti við:
„Frumvarpið var lesið yfir af sérfræðingum samtakanna áður en það var lagt fyrir þingið og þá komu ekki fram þessar athugsasemdir.“
„Mér finnst það verulega ómaklegt þegar hann vísar á sérfræðinga okkar með þessum hætti,“ segir Þórður, inntur eftir viðbrögðum.
„Við höfðum jú möguleika á því að gera umsagnir og koma áleiðis skilaboðum um frumvarpið, en það var ekki þannig að okkar lögfræðingar sætu með lögfræðingum ráðuneytisins í þessari vinnu, heldur var þetta alfarið unnið í ráðuneytinu.“
Þórður segir að ekki hafi verið orðið við nema örlitlum hluta þeirra athugasemda sem sambandið kom á framfæri við fjármálaráðuneytið.
„Og ein okkar athugasemda var einmitt sú, að menn skyldu gæta að því að allar skilgreiningar væru réttar og í samræmi við samkomulagið.“
Fulltrúar KÍ og annarra samtaka opinberra starfsmanna, sem aðild eiga að nýgerðu samkomulagi um lífeyrisréttindi, áttu fund um frumvarpið með fjárlaganefnd í morgun.
Segir Þórður að vel hafi verið tekið á mótum fulltrúum félaganna á fundinum, og að hlustað hafi verið á athugasemdir þeirra. Í framhaldinu vænti hann þess að nefndin tæki til umfjöllunar þær umsagnir sem henni berist frá samtökum opinberra starfsmanna.