„Stríðsyfirlýsing við okkur“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Ljósmynd/Víkurfréttir

Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, þykja fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar um hækkun lífeyrisaldurs úr 67 árum í 70 ár, vera svik við samkomulag sem áður hafði verið gert.

Gylfi ritar um málið á Facebook-síðu sína í morgun en í gær lagði ríkisstjórnin til mikla hækk­un á bót­um al­manna­trygg­inga næstu tvö árin.

„Ég hrósa þeim fyrir að hækka grunnfjárhæðirnar. Ég tel að það hafi verið algjör nauðsyn, það hefði aldrei getað orðið nein sátt í þessu landi eins og þetta var,“ sagði Gylfi í samtali við mbl.is.

Hvað varðar hækkun lífeyrisaldurs í 70 ár er Gylfi ekki jafnánægður. Samkomulag þverpólitískrar nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði hafi verið svikið. 

Nú liggur það fyrir að það á ekki að fara í gegn frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda. Þar með verður lífeyriskerfi opinberra starfsmanna áfram í 65 árum. Það gengur alls ekki að hækkun lífeyrisaldurs sé hjá öllum öðrum en opinberum starfsmönnum og þingmönnum,“ sagði Gylfi en honum þykir þingmenn vera að slá skjaldborg um sjálfa sig:

„Þeir eru algjörlega sér á báti. Þetta eru að mínu mati hrein og klár svik við það samkomulag sem við gerðum og ég mun persónulega beita mér fyrir því á þingi Alþýðusambandsins eftir tvær vikur að það verði gjörbreyting á afstöðu okkar til samskipta ef þetta fer í gegn. Þetta er stríðsyfirlýsing við okkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert