Slæmt ef kjósendur telja þetta verulega kjarabót

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. mbl.is/Eggert

„Ég gladdist í skamma stund þar til ég frétti af því að mögulega eigi öll hækkunin að fara í gegnum sérstaka framfærsluuppbót,“ segir Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, í samtali við mbl.is vegna tillagna ríkisstjórnarinnar um hækkanir lágmarksbóta.

Eins og kom fram í gær leggur ríkisstjórnin til það sem hún kall­ar mikla hækk­un á bót­um al­manna­trygg­inga næstu tvö árin. Breyt­ing­arn­ar eru sagðar eiga að leiða til mik­ill­ar hækk­un­ar bóta al­manna­trygg­inga á næstu tveim­ur árum.

„Það er afskaplega sorglegt ef ríkisstjórnin ætlar að setja alla hækkunina í gegnum bótaflokk sem skerðir launatekjur, krónu á móti krónu. Þeir sem kannski voru með um 40 þúsund króna sérstaka framfærsluuppbót eru núna kannski með 60 þúsund króna framfærsluuppbót og það þýðir að ef viðkomandi vinnur sér inn 50-60 þúsund krónur skerðist sérstaka framfærsluuppbótin um sömu krónutölu,“ segir Ellen og bætir við að ekki séu allir öryrkjar með sérstaka framfærsluuppbót og muni því ekki njóta hækkunarinnar, sé það rétt sem hún heyrði um tillögurnar.

Ellen hefur áhyggjur ef þessi leið verður farin. Ekki sé verið að setja nógu mikla fjármuni í kerfið og ekki sé verið að sjá til þess að fólk njóti þess sem eiga að vera bætt kjör. Einnig þykir henni tímasetning tillögunnar hálffurðuleg:

„Það er hreint og klárt að við erum búin að berjast fyrir þessu máli allt kjörtímabilið og í fjölda ára, að örorkulífeyrir sé á svipuðum stað og lægstu laun. Mér þykir verulega slæmt ef kjósendur taka þessu þannig að þarna sé um verulega kjarabót til örorkulífeyrisþega að ræða í skjóli kosninga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka