Samstarfi Salek-hópsins hefur verið slitið á meðan niðurstaða um jöfnun lífeyrisréttinda á almenna markaðnum liggur ekki fyrir. „Samkomulagið sem menn töldu sig vera með í höndunum virðist ekki alveg augljóst,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. Hún segir líklegt að Salek-hópurinn komi saman á ný þegar niðurstaða um jöfnun lífeyrisréttinda liggur fyrir.
Deilt hefur verið um lagafrumvarp sem liggur fyrir Alþingi um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
Fréttatilkynning frá Salek-hópnum í heild sinni:
Heildarsamtök á vinnumarkaði (salek hópur) hafa frá árinu 2013 haft formlegt samstarf um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerðina, þar sem meðal annars hefur verið stefnt að upptöku nýs samningalíkans að norrænni fyrirmynd fyrir árið 2019. Í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi varðandi jöfnun lífeyrisréttinda var staða salek samstarfsins rædd á fundi hópsins í morgun og tekin sú ákvörðun að af frekara samstarfi hópsins yrði ekki, fyrr en niðurstaða lægi fyrir varðandi jöfnun lífeyrisréttinda.
Frétt mbl.is: Sátt um lagabreytingu