Lífeyrisreiknivél fyrir árið 2017

Komið hefur verið upp reiknivél þar sem fólk getur reiknað út upphæð lífeyrisgreiðslna árið 2017 fyrir og eftir staðgreiðslu skatta. Reiknivélin er þáttur í breytingum á bótakerfinu sem ætlað er að gera kerfið einfaldara, auðskiljanlegra og gegnsærra.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef velferðarráðuneytisins.

Tilkynningin í heild:

„Alþingi hefur samþykkt frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, félagslega aðstoð og málefni aldraðra. Breytingarnar eru þær viðamestu sem gerðar hafa verið á almannatryggingakerfinu í áratugi og felast m.a. í breyttu og einfölduðu bótakerfi og sveigjanlegum starfslokum. Framlög ríkisins til lífeyriskerfisins verða aukin um 10 – 11 milljarða króna á ári.

Kerfisbreytingarnar ásamt auknum fjármunum inn í kerfið munu leiða til hækkunar bóta hjá þorra ellilífeyrisþega. Elli- og örorkulífeyrisþegum sem halda einir heimili og eru með fullan búseturétt hér á landi verða tryggðar 280.000 kr. á mánuði frá 1. janúar 2017 og ári síðar hækkar sú fjárhæð í 300.000 kr.

Eitt af mikilvægum markmiðum með breytingum á bótakerfinu er að gera það einfaldara, auðskiljanlegra og gegnsærra og auðvelda fólki þannig að fylgjast með réttindum sínum.  Í þessu skyni hefur einnig verið komið upp reiknivél þar sem hægt er að slá inn þær forsendur sem eiga við í hverju tilviki og sjá með einföldum hætti hver upphæð greiðslna muni verða á árinu 2017 fyrir og eftir staðgreiðslu skatta. Þann fyrirvara verður þó að setja að útreikningur skatta í reiknivélinni miðast við reglur ársins 2016 þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig skattar og persónuafsláttur muni breytast á árinu 2017.

Ef einhverjar spurningar vakna vegna útreikninga bóta er fólki bent á að hafa samband við Tryggingastofnun ríkisins en einnig geta lífeyrisþegar notað vefsvæði sitt undir mínum síðum á vef stofnunarinnar; www.tr.is.“

Uppfært kl. 14.56:

Frétt ráðuneytisins og reiknivélin á vef Tryggingastofnunar hafa verið teknar út á meðan verið er að leggja lokahönd á reiknivélina. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu er von á því að hún detti inn von bráðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka