Grái herinn íhugar málsókn gegn ríkinu

Grái herinn efndi til útifundar á Austurvelli síðasta haust. Nú …
Grái herinn efndi til útifundar á Austurvelli síðasta haust. Nú íhugar félagið að fara í mál við íslenska ríkið. mbl.is/Golli

Grái herinn, bar­áttu­hóp­ur eft­ir­launa­fólks á veg­um Fé­lags eldri borg­ara í Reykja­vík og nágrenni, íhugar að fara í mál við íslenska ríkið til að láta reyna á lögmæti skerðinga á greiðslum til eldri borgara frá Tryggingastofnun.

„Ég á von á því að við munum leggja áherslu á það að láta á þetta reyna, að hreinlega bara fara í mál og fá úr þessu skorið,“ segir Helgi Pétursson, talsmaður Gráa hersins, í samtali við mbl.is. Ekki liggur fyrir endanleg ákvörðun um málsókn en Grái herinn mun funda um málið á mánudaginn og á Helgi von á því að þá verði tekin ákvörðun um næstu skref.

„Eignaupptaka og þjófnaður“

„Lágmarksframfærslunni sem við eigum að fá frá ríkinu er velt yfir á lífeyrissjóðina og þetta segjum við að sé bara eignaupptaka og þjófnaður,“ segir Helgi. Grái herinn vill nú láta reyna á lögmæti þessa fyrir dómstólum.

Segir Helgi grunnágreininginn tengjast því að upprunalega, árið 1946, hafi almannatryggingakerfið verið sett á laggirnar en með því átti að tryggja eldri borgurum lágmarksframfærslu við 67 ára aldur. Nokkrum árum síðar hafi svo lífeyrissjóðskerfinu verið komið á í áföngum. „Og það eru okkar eigin peningar og kemur ríkinu ekkert við,“ segir Helgi.

Helgi Pétursson, talsmaður Gráa hersins.
Helgi Pétursson, talsmaður Gráa hersins. mbl.si/Rax

„En svo þegar þetta stóra söfnunarkerfi fer að vinda upp á sig og sjóðirnir fara að verða svona öflugir þá náttúrlega freistast stjórnmálamenn - allir stjórnmálamenn, allra flokka og allra ríkisstjórna, til þess að vísa yfir á lífeyrissjóðskerfið,“ segir Helgi. „Það var aldrei díllinn,“ heldur hafi lífeyrissjóðskerfið verið hugsað til viðbótar og um það snúist málið.

Búa við aðrar aðstæður en fyrri kynslóðir

Spurður segir Helgi félagið sjá sig knúið til að láta reyna á þessa leið enda sé annað fullreynt. Svo virðist, að sögn Helga, sem stjórnmálamenn hafi tilhneigingu til að segja að það sem eldri borgarar fái í sinn hlut sé nóg til framfærslu og það sé ekkert annað en frekja að fara fram á meira. Þótt stjórnmálamenn virðist jákvæðir þegar rætt er við þá, þá gerist samt ekki neitt.

Þá segir Helgi oft gleymast að sú kynslóð sem nú er komin á eftirlaun þurfi að standa straum af afborgunum til viðbótar við venjulega framfærslu. „Þetta er fólk sem skuldar, það skuldar námslán, húsnæðislán og allt mögulegt. Þeir sem voru bara einni kynslóð á undan okkur, þeir voru ekki svona skuldsettir,“ segir Helgi.

„Það er búið að vera mjög erfitt að fá menn til þess að skilja þetta. Þetta eru forsendurnar, þetta er sviðsmyndin og þetta er það sem við viljum fá úr skorið,“ segir Helgi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka