Erlendar eignir lækkuðu um 21 milljarð

Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna.
Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gengisáhrif krónunnar til lækkunar á erlendum eignum Lífeyrissjóðs verslunarmanna námu 21,2 milljörðum króna á árinu 2016.

Þetta kom fram í máli Guðmundar Þ. Þórhallssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins, þegar hann flutti yfirlit um afkomuna á árinu 2016 á ársfundi sjóðsins, sem nú stendur yfir, að því er segir í fréttatilkynningu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna.

„Fram kom í máli hans að sjóðurinn nýtti til fulls allar gjaldeyrisheimildir Seðlabankans á árinu 2016 til kaupa á erlendum eignum. Með því hafi verið fylgt fjárfestingarstefnu sjóðsins með aukinni dreifingu eigna og fjárfestingu til langs tíma. Erlend verðbréfaeign sjóðsins nam um 159 milljörðum króna í lok ársins, en var um 153 milljarðar í árslok 2015,“ segir í tilkynningunni.

„Guðmundur sagði að þótt árið 2016 hafi verið sjóðnum mótdrægt væri langtímaávöxtun góð eins og endurspeglaðist í sterkri tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins, sem er jákvæð um 4,2%. Hann tók sem dæmi að frá því í árslok 2009 hafi meðalraunávöxtun á ári af skráðum innlendum hlutabréfum sjóðsins numið 18% og að árleg meðalraunávöxtun allra eigna undanfarin 20 ár sé 4,4%.“

Hrein eign Lífeyrissjóðs verslunarmanna til greiðslu lífeyris var í árslok 2016 602 milljarðar. Hafði hún hækkað um 19 milljarða á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka