Þurftu að bíða um borð í 80 mínútur

Farþegar þurftu að bíða í dágóðan tíma um borð í …
Farþegar þurftu að bíða í dágóðan tíma um borð í flugvélunum í morgun. Ljósmynd/Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Veðrið er að ganga niður á landinu og vind að lægja á Keflavíkurflugvelli svo unnt er að hleypa farþegum frá borði. Farþegar í 19 flugvélum hafa þurft að bíða um borð í vélunum og þeir sem hafa beðið lengst voru í um 80 mínútur. 

Um klukkan 10:20 var hægt að tengja landgöngubrýr eða rana við þær 19 flugvélar sem lentu á flugvellinum á síðustu tæpu tveimur klukkutímum.

Flugfélagið Icelandair notaðist einnig við stigabíla til að koma farþegum frá borði í nokkrum vélum. „Þetta er liður í því að koma fólki sem fyrst frá borði svo hægt sé að hleypa þeim næstu að,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Flugi Icelandair frá Bandaríkjunum í gær var seinkað vegna stormsins hér á landi. Guðjón reiknar með að tafir verði á flugi fram eftir degi en telur ekki líklegt að þær nái inn á morgundaginn „en við hvetjum farþega til að fylgjast vel með sínu flugi“ segir Guðjón. 

Þrjár vélar til viðbótar lentu um klukkan hálfellefu og þær þurfa að bíða eftir að komast að byggingunni til að hleypa farþegum út. Ekki er vitað hversu löng sú bið verður um borð í vélunum en þær komast ekki að fyrr en búið að er að ferma flugvélina að nýju og næstu farþegum hleypt um borð. 

„Verkefni morgunsins og fram eftir degi verður að koma þessu aftur í samt lag,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert