Mikill eldur í Hellisheiðarvirkjun

Mikill reykur stígur til himins frá Hellisheiðarvirkjun.
Mikill reykur stígur til himins frá Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Hanna

Mikill eldur er laus í Hellisheiðarvirkjun. Slökkviliðsbílar frá Þorlákshöfn, Hveragerði, Selfossi og höfuðborgarsvæðinu eru á staðnum. Eldurinn var nokkur og stóð, um tíma að minnsta kosti, uppúr þaki stöðvarhússins. Tveimur vélum til raforkuframleiðslu og einni varmavél hefur slegið út.

Samkvæmt fréttamanni mbl.is á staðnum kemur þykkur svartur reykur upp úr stöðvarhúsinu og er eldurinn undir mjög greinilegur. Segir hann að búið sé að loka veginum að stöðinni fyrir almennri umferð. Þá sé vináttin ekki mjög hagstæð til slökkvistarfs, en dælan frá körfubílnum fjúki alltaf aðeins til baka, enda sé hvasst á svæðinu.

„Það kemur upp eldur hérna í loftræstikerfi um hálftólf-leytið, talsverður eldur,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orku Náttúrunnar í samtali við mbl.is.

„Það eru engin meiðsli á fólki eða neitt þvíumlíkt og slökkvilið, bæði frá Brunavörnum Árnessýslu og höfuðborgarsvæðinu eru komin á staðinn og fleiri á leiðinni. Þau eru farin að vinna að því að ráða niðurlögum eldsins,“ segir Eiríkur.

Mikill eldur og svartan reyk leggur upp af húsi virkjunarinnar, að sögn sjónarvottar sem keyrði þar fram hjá fyrir skömmu. Mikill viðbúnaður er vegna eldsvoðans.

Slökkviliðið vinnur nú að því að ráða niðurlögum eldsins.
Slökkviliðið vinnur nú að því að ráða niðurlögum eldsins. mbl.is/Hanna

Allur mannskapur af höfuðborgarsvæðinu og Árborg sendur á vettvang

Samkvæmt Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu var stærstur hluti flotans sendur úr bænum og allur mannskapur á frívakt kallaður til að manna vaktina í bænum. Eru þegar farnir 3 dælubílar, 2 körfubílar og 4 sjúkrabílar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru einnig farnir bílar frá Brunavörnum Árnessýslu. Samtals eru því 3 körfubílar á svæðinu, auk 4 körfubíla, tankbíls og sjúkrabíla. Þá eru reykkafarar á leið inn í húsið.

Varmavélin framleiðir einn tíunda af heitu vatni höfuðborgarsvæðisins

Eiríkur segir í samtali við mbl.is klukkan hálf eitt að tvær rafmagnsvélar séu dottnar út. Þá hefur einnig varmastöð virkjunarinnar slegið út, en hún framleiðir um einn tíunda af því heitavatni sem notað er á höfuðborgarsvæðinu.

Eiríkur segir að eldurinn hafi komið upp í miðju stöðvarhússins, en vélarnar sem slógu út eru sitt hvoru megin við þann stað þar sem eldsupptökin voru. „Við vitum ekki hvað gerðist eða umfang tjóns,“ segir Eiríkur. Allur mannskapur hafi farið úr húsinu og nú séu bara slökkviliðsmenn þar.

Til skamms tíma segir Eiríkur að áhrifin af því að vélarnar hafi slegið út séu ekki mikil, en fyrirtækið sé þó farið að hugsa til þess ef framleiðsan liggi þarna niðri í einhvern tíma. Í heild eru sjö vélar sem framleiða rafmagn í stöðinni og ein varamvél.

Uppfært kl 12:54:

Samkvæmt blaðamanni mbl.is á staðnum sést nú ekki mjög mikill eldur og reykurinn er orðinn minni. Virðist vera sem slökkvistarf sé að skila árangri.

Fréttin verður uppfærð.

Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert