Telur að málið varði almenning

Dóminum fagnað í dag. Ritstjórar Stundarinnar, Jón Trausti Reyn­isson og …
Dóminum fagnað í dag. Ritstjórar Stundarinnar, Jón Trausti Reyn­isson og Ingi­björg Dögg Kjart­ans­dótt­ir, ásamt Jóhannesi Kr. Kristjánssyni hjá Reykjavík Media. mbl.is/Hari

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í dag í svonefndu lögbannsmáli að við mat á því hvort lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media um gögn um viðskiptavini Glitnis banka verði ekki litið framhjá því að umfjöllunin um umsvif Bjarna Benediktssonar og aðila honum tengdum hafi lotið að viðskiptasambandi þeirra við bankann á sama tíma og hann hafi verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem verið hafi í ríkisstjórn.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til þess að staðfesta lögbann sýslumannsins í Reykjavík á umfjöllun um gögnin eins og þrotabú Glitnis banka hafði farið fram á eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag. Þrotabúið getur hins vegar áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar og á meðan er lögbannið í raun enn í gildi. Þrotabúið hefur þriggja vikna frest til þess að taka ákvörðun um það hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Héraðsdómur segir að umfjöllun fjölmiðlanna tengst viðskiptaháttum í einum af stóru viðskiptabönkunum fyrir fall þeirra haustið 2008. Rifjað er upp að bankahrunið hafi haft mikil og almenn áhrif á alla starfsemi í landinu og kjör almennings. „Opinber umræða og umfjöllun fjölmiðla hafi frá þeim tíma snúist mikið um að greina aðdraganda og orsakir þess hvernig fór og hafi umfjöllun um fjárhagsleg málefni einstakra manna oft verið nærgöngul.“

Skerðing á frelsi fjölmiðla ekki nauðsynleg

„Ljóst er að umfjöllun um viðskiptaleg umsvif þáverandi forsætisráðherra og annarra, þar sem meðal annars var vikið að áhættusömum fjárfestingum sem ekki skiluðu tilætluðum árangri eru þáttur í umfjöllun fjölmiðla um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kann að hafa átt þátt í því hvernig fór,“ segir ennfremur og vísað í dóm Hæstaréttar frá 24. nóvember 2011 í þessu sambandi.

„Eins og vikið er að í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar getur skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um slík málefni ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Gildir þá einu þótt umfjöllunin byggi á gögnum sem undirorpin eru trúnaði og að birtar hafi verið upplýsingar sem gangi nærri friðhelgi einkalífs tilgreindra einstaklinga,“ segir áfram. Aðrir einstaklingar sem fjallað hafi verið um tengist Bjarna í gegnum viðskipti eða fjölskyldubönd.

Mat dómsins sé að umfjöllun fjölmiðlanna um málefni þessara einstaklinga hafi verið svo samofin fréttaefninu í heild að ekki verði greint á milli. Ekki verði dregnar þær ályktanir af umfjölluninni að ætlunin hafi verið að fjalla um málefni handahófskenndra einstaklinga sem ekki ætti erindi við almenning. Þannig hafi fjölmiðlarnir ekki gengið nær einkalífi umræddra einstaklinga en óhjákvæmilegt hafi verið í opinberri umræðu í lýðræðissamfélagi.

Kröfur þrotabúsins um afhendingu gagna óljós

Héraðsdómur segir að málefnið hafi varðað almenning „og að nægar ástæður hafi þar af leiðandi verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa. Breytir það ekki framangreindri niðurstöðu hvernig umþrætt gögn komust í hendur stefndu né heldur að í þeim séu upplýsingar sem undirorpnar séu bankaleynd.“

Dómurinn féllst ekki á kröfur þrotabús Glitnis banka um afheningu umræddra gagna og afrita af þeim og segir þær ekki uppfylla skilyrði um skýrleika sem gera verði. Sá galli sé einnig á kröfunum að þær byggi á eignarrétti þrotabúsins en að öðru leyti vísi það til lagaákvæða um meðferð upplýsinga. Grundvöllur krafnanna sé því einnig óljós. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að umrædd gögn hafi verið einkagögn þrotabúsins.

„Að því virtu er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að færa sönnur fyrir því hvaða skjöl það eru sem eru í vörslum stefndu og hvaða rétt hann eigi til þeirra. Er kröfugerð stefnanda hvað varðar afhendingu gagna og afrita af þeim, og málatilbúnaður þar að lútandi, af þeim sökum það óljós að vísa verður kröfunum frá dómi án kröfu.“

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert