Neitar að hafa stungið Sula til bana

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Dagur Hoe Sigurjónsson, sem er ákærður fyrir að hafa stungið tvo albanska pilta, annan til ólífis, á Austurvelli aðfararnótt 3. desember í fyrra, neitar sök málinu og hafnar bótakröfum. Þetta kom fram við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Dagur er ákærður fyrir manndráp og tilraun til manndráps. 

Fram kom við þingfestinguna að þinghald í málinu verði opið.

Verjandi Dags sagðist hafa óskað eftir upplýsingum frá Útlendingastofun um feril brotaþola en sagði að gögnin hefðu ekki skilað sér.

Fyrirtaka í málinu verður 28. mars. Þá mun verjandi leggja fram beiðni um yfirmat. Verði fallist á það mun málið frestast um einhverjar vikur.

Að sögn dómara er stefnt á að aðalmeðferð hefjist eftir miðjan maí.  

Foreldrar krefjast yfir 20 milljóna í miskabætur

Pilturinn sem lést hét Klevis Sula. Hann ætlaði að rétta árásarmanninum hjálparhönd er hann var stunginn, að því er virðist að tilefnislausu. Hinn pilturinn var útskrifaður af sjúkrahúsi fljótlega eftir árásina.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar

Í einkaréttarkröfu málsins krefst móðir Sula þess að Dagur verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 10 milljónir króna og skaðabætur vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 867.237 krónur, auk dráttarvaxta.

Faðir Sula krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 10 milljónir króna, auk dráttarvaxta.

Af hálfu Elio Hasani, sem Dagur er einnig ákærður fyrir að hafa ráðist á, er gerð krafa um að honum verði greiddar 3.243.040 krónur í bætur, auk vaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert