Saksóknari segir 18-19 ára dóm hæfilegan

Það var hér, vinstra megin við styttuna af Jóni Sigurðssyni …
Það var hér, vinstra megin við styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli, sem atvikið átti sér stað aðfaranótt 3. desember árið 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við upphaf aðalmeðferðar í máli Dags Hoe Sigurjónssonar fyrir Landsrétti í dag voru spilaðar upptökur úr öryggismyndavélum af atvikum sem áttu sér stað á miðjum Austurvelli aðfaranótt 3. desember 2017. Upptökurnar sýna atvik ekki vel, en þær sýna hversu stuttan tíma atlaga Dags tók, einungis um 25 sekúndur, en hún varð albönskum manni, Klevis Sula, að bana og særði annan mann, þó ekki lífshættulega.

Dagur hlaut 17 ára dóm í héraðsdómi fyrir manndráp og tilraun til manndráps í fyrrasumar. Hann hefur borið því við að mennirnir tveir sem hann stakk hafi ráðist að sér að fyrra bragði og hann þannig verið að verja sig, en Dagur sat einn á bekk á Austurvelli laust fyrir kl. 5 að nóttu þegar albönsku mennirnir tveir nálguðust hann.

Vitni í málinu lýstu því fyrir héraðsdómi að hafa séð mennina tvo nálgast Dag, en saksóknari og verjandi hér í Landsrétti í dag drógu upp ólíka mynd af því hvernig samskiptum mannanna hefði verið háttað og hver hefði átt upptökin að átökunum.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins. Hann sagði að ekki hefði verið um neina nauðvörn að ræða af hálfu Dags, en ef svo væri hefði atlagan að mönnunum tveimur einnig verið langt umfram það sem nauðvörn krefðist. 

Saksóknarinn sagði það þó útilokað að mennirnir tveir hefðu ráðist að Degi að fyrra bragði þar sem læknir hefði staðfest að engir áverkar hefðu verið á líkama Dags, utan skurða á höndum sem hann fékk eftir eigin hníf.

Ákæruvaldið telur eðlilegt að Dagur Hoe verði dæmdur í 18-19 ára fangelsi fyrir brot sín, 16 ár fyrir manndrápið og 2-3 ár fyrir tilraun til manndráps. Refsiramminn fyrir síðara brotið er fimm ár og sagði Helgi Magnús að engin ástæða hefði verið til þess að að milda þann dóm svo mikið í héraði, þar sem ljóst væri að ef maðurinn hefði ekki náð að komast undan atlögu Dags gæti hann hafa látið lífið.

Héraðsdómur hafi horft framhjá því sem ætti að meta til refsilækkunar

Lúðvík Örn Steinarsson, skipaður verjandi Dags, gerði kröfu um sýknu, en til vara að refsing hans yrði milduð. Hann sagði að skjólstæðingur sinn teldi héraðsdóm í málinu rangan og refsingin „allt of þung“.

Verjandinn lagði áherslu á að framburður Dags hefði verið á sama veg á öllum stigum málsins og sagði óljóst hvað það væri sem nákvæmlega gerðist á Austurvelli, þó að sjá megi með stuðningi vitna hvernig stóra myndin væri.

Hann sagði það liggja fyrir að Dagur hefði átt við ýmis vandamál að stríða allt frá unga aldri, hann væri með ADHD, Tourette, hefði glímt við þunglyndi og kvíða, auk þess sem hann heyrði raddir í höfði sér. Verjandinn sagði það liggja fyrir að hann hefði ekki alltaf fulla stjórn á huga og hönd, að það þyrfti rétturinn að hafa í huga.

Einnig sagði verjandinn að nokkrum mánuðum fyrir atvikin á Austurvelli hefði Dagur orðið fyrir árás af hálfu tveggja eða þriggja erlendra manna. Hann var sleginn með flösku í höfuðið þannig að hann missti meðvitund, en mennirnir létu síðan högg og spörk dynja á honum í götunni. Þá árás þyrfti að taka með í reikninginn, þar sem hún hefði haft veruleg áhrif á Dag og mögulega gætu minningar um hana hafa skýrt viðbrögð hans við því er albönsku mennirnir tveir komu til hans þar sem hann sat á bekk á Austurvelli, í miklu tilfinningalegu uppnámi vegna rifrildis við unnustu sína og mjög ölvaður í þokkabót, en áfengismagn í blóði hans mældist 2,2 prómill.

Dagur Hoe Sigurjónsson.
Dagur Hoe Sigurjónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Hann sagði héraðsdóm hafa litið framhjá öllum þessum atriðum, sem gætu orðið skjólstæðingi hans til refsilækkunar. Þá sagði hann rannsókn lögreglu á málinu einnig hafa verið ófullnægjandi, til dæmis hefði ekki verið rannsakað nægilega hvort annað eggvopn hefði getað verið notað.

Þá setti hann spurningarmerki við framgöngu mannsins sem lifði árásina af, en sá mun hafa farið heim til sín beint eftir atvikið án þess að huga nánar að besta vini sínum og farið að þrífa sig. Verjandinn sagði hann hafa logið fyrir dómi um eigin ástand þetta kvöld, hann hefði einungis sagst hafa drukkið einn bjór, en eiturefnagreining hefði sýnt fram á að hann hefði verið undir áhrifum kókaíns og kannabisefna, auk áfengis.

Verjandinn vísaði einnig til þess að báðir brotaþolarnir, ungir albanskir menn, hefðu verið í óleyfi hér á landi, verið vísað brott af yfirvöldum og sætt endurkomubanni. Hann setur spurningarmerki við það að eftir atvikið hafi sá sem lifði árásina af farið af landi brott og spurði hvað hann hefði að fela í málinu.

Helgi Magnús saksóknari svaraði þessu atriði sérstaklega í svarræðu sinni og sagði það alveg fráleitt að halda því fram að maðurinn hefði haft eitthvað með stungurnar að gera, eins og verjandinn ýjaði að. Eðlilegt væri að ungur maður sem hér væri ólöglega staddur færi frá landinu eftir að besti vinur hans er myrtur og sömuleiðis eðlilegt að hann hefði farið af vettvangi þessa örlagaríku nótt, af ótta við að vera sendur rakleiðis úr landi yrði hann færður í vörslu lögreglu.

Réttargæslumaður mannsins sem lifði árásina af sagði hann hafa verið rótlausan síðan árásin var. Hann flutti til heimalands síns Albaníu í fyrra og sagði lögmaður hans að hann hefði frekar kosið að leita sér sérfræðiaðstoðar þar. Hann krefst 2,5 milljóna króna í miskabætur fyrir árásina og segir tilefni til þess að skoða að hækka þær bætur sem manninum voru dæmdar í héraðsdómi, sér í lagi sökum þess að sá látni hafi verið verið besti vinur hans og málið því reynst honum afar þungbært. 

Réttargæslumaður foreldra Klevis Sula gerði kröfu um samtals 20 milljóna króna miskabætur fyrir þeirra hönd og sagði þau hafa verið miður sín frá því að þeim var tjáð að sonur þeirra, annar tveggja barna, lægi fyrir dauðanum á sjúkrahúsi á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka