Sunna Elvira Þorkelsdóttir er komin til Íslands. Sunna Elvira var flutt með sjúkraflugi frá Spáni í dag og lenti vélin skömmu fyrir klukkan fimm á Keflavíkurflugvelli.
Sjúkrabíll og lögreglubíll voru við flugskýlið þar sem vélin lenti. Leiðir skildi fyrir utan flugvöllinn og hélt sjúkrabíllinn þá áleiðis til Reykjavíkur þar sem Sunna Elvira var flutt á endurhæfingardeild Landspítalans á Grensási.
Sunna lamaðist eftir fall á Spáni í janúar og hefur dvalið á sjúkrahúsi þar í landi síðan þá. Sunna var sett í farbann í kjölfar handtöku eiginmanns hennar, Sigurðar Kristinssonar, sem talinn var eiga aðild að fíkniefnainnflutningi. Farbanninu var aflétt í síðustu viku og fékk Sunna vegabréf sitt afhent í fyrradag.
Frétt mbl.is: Sunna hefur endurheimt vegabréfið
Nú tekur við endurhæfing á Íslandi. Sunna Elvira sagði í samtali við mbl.is á laugardag að hennar bíði pláss á endurhæfingardeild Landspítalans á Grensási.