Lögreglan tekur yfir mál Sunnu

Sunna Elvira Þorkelsdóttir.
Sunna Elvira Þorkelsdóttir.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið formlega yfir rannsóknina á máli Sunnu Elviru Þorkelsdóttur sem lamaðist eftir fall á Spáni fyrir áramót.

Að sögn Huldu Elsu Björgvinsdóttur, saksóknara hjá lögreglunni, mun lögreglan yfirfara öll gögn sem hún hefur fengið í málinu frá spænsku lögreglunni og taka ákvörðun í framhaldi af því.

Spurð hvort ákæra verði lögð fram segir hún það fara eftir því hvað lögreglan er með í höndunum. „Við reynum að hraða rannsókn málsins eins og við getum,“ segir hún.

Hulda Elsa segir jafnframt að það muni skýrast fljótlega hvort Sunna Elvira fái stöðu réttarstöðu sakbornings eða vitnis í málinu.

Töluverðan tíma hefur tekið fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu að fá að taka yfir rannsókn málsins. Hulda segir þennan tíma eiga sér eðlilegar skýringar. „Þetta er í raun og veru þessi gangur þegar verið er að færa rannsókn á milli landa, það er ekkert óeðlilegt við það. Þetta þarf að fara í ákveðið ákvörðunarferli úti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert