Framsókn vill skóla- og umferðarmál í forgang

Ingvar Mar Jónsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, og Snædís Karlsdóttir, …
Ingvar Mar Jónsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, og Snædís Karlsdóttir, sem skipar annað sætið kynna áherslur flokksins fyrir kosningarnar. Ljósmynd/Aðsend

Skóla- og umferðarmál verða í forgangi hjá frambjóðendum Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Flokkurinn kynnti í dag þá aðgerðaráætlun sem hann hyggst hrinda í framkvæmd, komist flokkurinn í meirihluta í borgarstjórn.

Segir í fréttatilkynningu að aðgerðirnar eigi allar að  koma til framkvæmda á fyrri helmingi kjörtímabilsins.

Í samgöngumálum vill flokkurinn raunhæfar lausnir sem borgarbúar finna strax fyrir. Greiða eigi leið bíla um núverandi gatnakerfi  „með því að gera aðra valkosti fýsilega fyrir þá sem geta nýtt sér fjölbreyttan ferðamáta.“ Þannig eigi að vera frítt í strætó og veita háskólanemum samgöngustyrk fyri að nota strætó, hjóla eða ganga í skólann.

Það sé þá nauðsynlegur öryggisventill í flugmálum landsins að hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýri að því er segir í tilkynningunni.

„Á grundvelli þess að flugvöllurinn verði áfram á sínum stað ætti með einföldum raunhæfum aðgerðum að vera hægt að létta hæfilega á umferð úr austurborginni og að háskólasvæðunum tveimur og Landspítalanum,“ er haft eftir Ingvari Mar Jónssyni, oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík í tilkynningunni. 

Þá vill Framsóknarflokkurinn forgangsraða í þágu menntunar og gera kennarastarfið eftirsótt á ný, m.a. með því að hækka laun leik- og grunnskólakennara um 100 þúsund krónur á mánuði.  Þannig endurspegli launin bæði þá menntun og ábyrgð sem fylgir starfinu. Einnig eigi að stytta vinnuviku í leik- og grunnskólum í 35 klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert