Fór fram á 18 ára fangelsi

Dagur Hoe Sigurjónsson er ákærður fyrir manndráp og tilraun til …
Dagur Hoe Sigurjónsson er ákærður fyrir manndráp og tilraun til manndráps. Ljósmynd/Árni Sæberg

Vankantar á rannsókn og skortur á rannsóknar- og sönnunargögnum eiga að leiða til sýknu Dags Hoe Sigurjónssonar. Þetta kom fram í málflutningi verjanda Dags við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Saksóknari sagði engan vafa ríkja um sekt Dags og taldi hann ekki eiga sér neinar málsbætur. Ákæruvaldið fór fram á 18 ára fangelsisrefsingu yfir Degi.

Dagur, sem er ákærður fyrir manndráp og tilraun til manndráps með því að hafa stungið tvo albanska menn, þar af annan til bana á Austurvelli í desember í fyrra, bar fyrir sig minnisleysi um atburðinn við upphaf aðalmeðferð í gær.

Fór fram á 18 ára fangelsi

Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari taldi að enginn vafi væri um lögfulla sönnun af hálfu ákæruvaldsins í málinu. Þá sagði hún að misræmi í framburði Dags sem og meint minnisleysi hans ótrúverðugt og bera vott um að Dagur sé að reyna komast undan ábyrgð gjörða sinna.

Í sönnunarfærslu sinni fór saksóknari yfir að Dagur hafi við fyrstu yfirheyrslu ekki kannast við að hafa verið með hníf í átökum við mennina en hafi stuttu þó eftir árásina viðurkennt fyrir vini sínum að hafa misst stjórn á skapi sínu og stungið þá.

Saksóknari sagði það athyglisvert að Dagur beri fyrir sig minnisleysi um alla þá atburði sem honum er gefnir að sök en muni þó að mennirnir hafi átt frumkvæði að átökunum.

Þá taldi saksóknari framburð vitna sem og myndbandsupptökur styðja mál ákæruvaldsins um að Dagur hefði stungið mennina. Einnig hafi lífsýni úr hinum látna fundist á hnífi, sem Dagur var með á sér við handtöku, og á jakka Dags.

Saksóknari sagði það mat ákæruvaldsins að um einbeittan ásetning hafi verið að ræða hjá Degi til að valda sem mestum skaða og afleiðingarnar hafi hann engu skipt.

Ákæruvaldið taldi Dag ekki eiga sér neinar málsbætur og meðal annars hafa reynt að fegra sinn hlut við rannsókn og meðferð málsins. Hann hafi ekki sýnt neina iðrun á gjörðum sínum og gert lítið úr sínum þætti málsins.

Með vísan til þess taldi saksóknari hæfilega refsingu 18 ára fangelsi.

Ekki hlutverk ákæruvaldsins að „fabúlera

Unnsteinn Elvarsson, verjandi Dags, fór aðallega fram á sýknu en til vara niðurfellingu refsingar vegna neyðarvarnarsjónarmiða. Þá gerði hann kröfu um beitt yrði vægustu refsingu sem lög leyfðu ef Dagur yrði sakfelldur.

Hann taldi ljóst að af framburði vitna sem og Dags að mennirnir tveir hafi ráðist að brotaþola með sparki og höfuðhöggi sem hafi á endanum leitt til átakanna.

Verjandinn sagði það sérstakt að hlusta á ákæruvaldið fjalla um að ekki væri sannað að brotaþolar hafi átt upptökin að átökunum. Hlutverk ákæruvaldsins væri að leiða hið sanna í ljós en ekki „fabúlera“ um það sem ekki væri.

Þá sagði hann það hafa komið í ljós að Dagur hafi engu logið við rannsókn málsins, verið samvinnuþýður og leitast við að upplýsa málið.

Hann taldi að líta þyrfti til veikindasögu Dags sem hafi varað frá unga aldri. Hann hafi lengi haft einkenni þunglyndis, kvíða og streitu meðal annarra veikinda og hafi þau versnað með árunum.

Þessi einkenni andlegra veikinda auk mikillar ölvunar umrætt kvöld geti útskýrt að einhverju leyti þá einkennilegu hegðun sem vitni segja Dag hafa sýnt í aðdraganda átakanna.

Verjandi Dags gerði einnig að umtalsefni þá frásögn fjölmiðla að Dagur hafi verið undir áhrifum fíkniefna umrætt kvöld. Þetta sagði hann algjörlega rangt enda hafi Dagur ekki verið í neyslu í nokkur ár. Verjandinn bað fjölmiðla um að hætta þeirri röngu umfjöllun.

Vankantar á rannsókn málsins

Verjandi Dags gerði að auki athugasemdir við rannsókn lögreglu og framburð brotaþola sem hann taldi ótrúverðugan og stangast á við vitnisburð, gögn málsins sem og hans eigin frásögn á fyrri stigum málsins.

Hann sagði gögn málsins sýna að brotaþolinn Elio hafi verið undir áhrifum kókaíns, kannabisefna og áfengis þegar átökin áttu sér stað og að hegðun hans veki upp spurningar.

Hann hafi farið rakleiðis heim til sín og þrifið sig líkt og hann hefði eitthvað að fela. Þá hafi hann leynt atburðinum fyrir heimilisfólki sínu og neitað sjúkraliðum og lögreglu um að aðstoða sig. Að lokum hafi þurft að setja hann í handjárn. Einnig hafi hann flúið af spítalanum.

Hann taldi þá staðreynd að engin rannsókn hafi farið fram á þætti Elio bera vott um vankanta á rannsókn málsins.

Það var mat verjandans að Dagur hafi verið að verjast árás og tilviljun ein hafi ráðið því að hann hafi gripið til vasahnífs. Þá taldi hann útilokað að um ásetning hafi verið að ræða enda hafi atburðurinn tekið um það bil tuttugu sekúndur og Dagur hafi verið ófær um að búa til ásetning til manndráps á því tímabili.

Ekki einfalt að meta sakhæfi Dags

Tómas Zoëga geðlæknir kom fyrir héraðsdóm í dag til að svara spurningum um geðhæfi Dags.

Hann sagði það ekki einfalt mál að meta sakhæfi í málinu en að hans mati væri ekkert læknisfræðilegt sem kæmi í veg fyrir að refsing gæti borið árangur.

Hann taldi Dag vera með einkenni persónuleikaröskunar en fann ekki nein geðrofseinkenni í viðtölum sínum við Dag.

Þá kom Elínborg Bárðardóttir heimilislæknir fyrir dóm en hún framkvæmdi réttarlæknisfræðilega skoðun á Degi skömmu eftir handtöku.

Hún sagði Dag hafa verið óvenjulegan í hegðun. Hann hafi verið ör og talað mikið sem væri óvenjulegt að hennar reynslu í slíkum aðstæðum. Þá virtist henni Dagur ekki átta sig á þeim alvarlegu aðstæðum sem hann var í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert