Fimm skráðir til leiks í einstaklingskeppni

WOW Cyclothon hefst í dag. A- og B-flokkar verða hins …
WOW Cyclothon hefst í dag. A- og B-flokkar verða hins vegar ræstir síðdegis á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag hefst einstaklingskeppni WOW Cyclothon þar sem keppendur hjóla einir síns liðs hringinn í kringum Ísland. Fimm keppendur eru skráðir til leiks, þar af einn erlendis frá. Keppendur leggja af stað frá Bílaumboðinu Öskju kl. 15 í dag. Keppni í A og B flokki hefst á morgun, miðvikudaginn 27. júní frá Egilshöll.

Í fréttatilkynningu frá mótshaldara kemur fram að einn útlendingur sé skráður í ár, Declan Brassil frá Írlandi. Hann hefur ásamt félaga sínum meðal annars klárað Race Across America sem er jafnan kölluð erfiðasta hjólreiðakeppni heims. Race Across America-keppnin er lík WOW Cyclothon að því leyti að keppt er í einstaklingsflokki og boðsveitaflokkum í tveggja, fjögurra eða átta manna liðum. Vegalengdin er þó töluvert lengri, yfir 4800km í gegnum 12 ríki og má búast við að tveggja manna lið sé um sjö daga að klára.

Eiríkur Ingi Jóhannsson, sem sigraði einstaklingskeppnina árið 2016, lenti í öðru sæti 2015 og þriðja sæti 2014, tekur aftur þátt í ár eftir að hafa setið hjá í fyrra. Í fyrra tók hann þátt í Race Across Ireland, sem er um það bil tvöfalt lengri en WOW Cyclothon með samanlagðri 23.000 metra hækkun. Þessir tveir keppendur eru því reynslunni ríkari þegar kemur að keppnum af þessu tagi og mun það eflaust nýtast þeim vel.

Hinir þrír keppendurnir eru Halldór Snorrason, Emil Þór Guðmundsson og Elín V. Magnúsdóttir. Elín yrði fyrst kvenna til þess að klára einstaklingskeppni WOW Cyclothon líkt og kom fram í frétt mbl.is í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert