Lögmaður með stöðu sakbornings

mbl.is/Hjörtur

Lögmaður á fertugsaldri er með stöðu sakbornings í rannsókn á umfangsmiklum skattalagabrotum. Brotin eru þau umfangsmestu sem hafa komið upp hér á landi að mati skattrannsóknarstjóra.

Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem fram kemur að Sigurður Gísli Björnsson, stofnandi og eigandi útflutningsfyrirtækisins Sæmark ehf., er grunaður um stórfelld skattaundanskot. Málið er til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara. Nafn hans kom upp í Panamaskjölunum og sem varð kveikjan að rannsókn skattrannsóknarstjóra.

Hús­leit var gerð á heim­ili Sig­urðar Gísla skömmu fyr­ir ára­mót og 1. mars staðfesti Landsréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um haldlagningu héraðssaksóknara á verulegum fjármunum vegna rannsóknar á Sigurði og Sæmarki. Í úrskurðinum segir meðal annars að ætluð brot beinist að vantöldum skattstofni á tímabilinu 2011-2016 og hljóðar upp á tæpa 1,3 milljarða króna.

Í frétt Stöðvar 2 kemur einnig fram að lögmaður og viðskiptafélagi Sigurðar Gísla er Andri Gunnarsson, lögmaður hjá Nordik lögfræðiþjónustu. Andri tengist þannig máli umbjóðanda síns en hann var sjálfur með stöðu sakbornings og gerð var húsleit á lögmannsstofu hans í síðasta mánuði. Landsréttur hafnaði í síðustu viku kröfu Andra um að afhenda gögn sem haldlögð voru í húsleitinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert