Lítill munur á kynjunum í Urriðavatnssundi

Keppendur leggja af stað yfir ráslínuna.
Keppendur leggja af stað yfir ráslínuna. Mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

„Sundið sjálft gekk með besta móti og það var fyrir öllu að keppendur voru mjög ánægðir,“ segir Guðmundur Davíðsson, einn skipuleggjenda Urriðavatnssundsins sem þreytt var í fimmta sinn í morgun.

Mikil þoka var er fyrsti hópur lagði af stað. „Þannig að við misstum sýnir á sundfólkinu þegar það var komið rétt út fyrir tangann,“ segir Guðmundur. Þokunni hafi þó létt fljótlega og sundið tekist einstaklega vel að þessu sinni.

165, af þeim 180 sem skráðir voru, luku keppni en lokað var fyrir skráningu um mánaðamótin júní – júlí og komust færri að en vildu. „Konurnar eru búnar að taka yfirhöndina í þessu eins og í svo mörgu öðru,“ segir Guðmundur. 102 konur voru skráðar í sundið að þessu sinni og 74 karlar.

Mikill meirihluti náði að ljúka sundinu, sem er ekki gefið. „Það er svolítið öðruvísi að synda 2,5 km eða að spyrna sér á milli bakka í lauginni.“

Spurður hvort met hafi verið slegin að þessu sinni segir Guðmundur svo ekki vera. „Það náðust þó alveg ótrúlega flottir tímar,“ bætir hann við.

Fyrstur til að ljúka sundinu var Hákon Jónsson á 40:21 og önnur var Hafdís Sigurðardóttir á 42:51.

Lítill munur var þá á þeirri konu og þeim karli sem komu önnur í mark í sínum flokki, en Hildur Ýr Viðarsdóttir var á 43:49 og Þórhallur Halldórsson á 43:29. Það má segja að munurinn á þeim Þorvaldi og Hildi Ýr sé innan skekkjumarka,“ segir Guðmundur.

Það er gott að hlýja sér í heita pottinum að …
Það er gott að hlýja sér í heita pottinum að loknu sundi. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Efstar í kvennaflokki

  1. Hafdís Sigurðardóttir  42:51
  2. Hildur Ýr Viðarsdóttir   43:49
  3. Rannveig Rögn Leifsdóttir 47:36

Efstir í karlaflokki

  1. Hákon Jónsson  40:21
  2. Þórhallur Halldórsson  43:29
  3. Oddur Þórarinsson 47:19 

Spurður hvort hann hafi sjálfur synt Urriðasundið segir Guðmundur svo ekki vera. „Ég lét búa til leið fyrir mig sem er 400 metra löng og hefur verið kölluð skemmtisundið, en ég hef ekki farið hana enn þá. Nú er ég hins vegar búinn að láta hafa eftir mér að ég fari á næsta ári þegar Urriðavatnssundið verður farið.“

Keppendum er hjálpað að landi að sundi loknu.
Keppendum er hjálpað að landi að sundi loknu. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert