Sjö karlmenn með geðklofagreiningu á aldrinum 51 til 80 ára og búa á heimilinu Bjargi á Seltjarnarnesi eru dæmi um fólk með flókinn, erfiðan geðvanda, sem verður fórnarlömb í togstreitu ríkis og sveitarfélaga, segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Heimili þeirra er í uppnámi þar sem ekki hefur tekist að semja um greiðslu kostnaðar sem fylgir búsetu þeirra. Samningur um rekstur heimilisins rennur út um áramót.
Anna Gunnhildur fjallaði um málefni heimilisins í erindi á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem nú stendur yfir.
Bjarg er rekið af Hjálpræðishernum, sem á húsnæðið, samkvæmt samningi við ríkið en Hjálpræðisherinn lýsti því yfir fyrr á árinu að hann myndi hætta rekstri heimilisins í árslok. Bjarg var eins og áður sagði rekið á grundvelli samnings við ríkið en við yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga var fjármagn sem áður fór í rekstur Bjargs fluttur frá velferðarráðuneytinu til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Við yfirfærsluna gleymdist einfaldlega að færa þjónustu við þennan hóp úr höndum félagasamtaka í hendur sveitarfélaganna, segir Anna Gunnhildur.
Þegar samkomulag náðist um aðkomu ríkisins að tónlistarkennslu á mið- og framhaldsskólastigi var ákveðið að þjónustan yrði áfram tímabundið áfram á hendi félagasamtakanna og greidd úr jöfnunarsjóði.
Hvað gerðist svo? Jú, þessir menn einfaldlega gleymdust í kerfinu með þeim afleiðingum að þeir hafa ekki notið sjálfsagðra réttinda til lífeyris, þjónustu og sjálfstæðs lífs heldur búið á stofnun í allt að 30 ár, segir Anna Gunnhildur.
Mennirnir búa í 10 til 15 fm herbergjum með aðgangi að sameiginlegri snyrtiaðstöðu og dagrými í þriggja hæða húsi þar sem ekki er lyfta og þröngur brattur stigi á milli hæða.
Þegar þeir voru fleiri bjuggu tveir og tveir saman í tveimur stærstu tveimur herbergjunum. Lengi vel var ekki hægt að læsa herbergjunum og íbúarnir höfðu engar læstar hirslur. Húsnæðið er vistlegt og starfsmenn fínir, sagði Anna Gunnhildur á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í dag.
Af því að mennirnir búa á stofnun fá þeir vasapening, ekki örorkubætur. Með öðrum orðum fá þeir 68.000 kr. í vasapening í staðinn fyrir hátt í 300.000 kr. örorkubætur. Af vasapeningnum þurfa þeir ekki að greiða kostnað við þjónustu og húsnæði eins og af örorkubótunum. Engu að síður er ljóst að með þessu skipulagi hafa þeir verið snuðaðir um hátt í 100 þúsund krónur á mánuði í áratugi, gróft reiknað, sagði Anna Gunnhildur í erindi á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.
Þó svo að lög um félagsþjónustu sveitarfélaga eigi að tryggja rétt allra með lögheimili í sveitarfélaginu til þjónustu njóta þessir íbúar sveitarfélagsins ekki þjónustu á borð við liðveislu, akstursþjónustu og annarrar þjónustu. Þeir njóta ekki skipulagðrar endurhæfingar og takmarkaðrar heilbrigðisþjónustu.
„Þessir menn búa ekki í Austur-Evrópu þeir í einu ríkasta sveitarfélaginu í einu ríkasta landi heims, á Íslandi,“ bendir Anna Gunnhildur á.
Hvernig getur staðið á því að veikasti hópur fatlaðs fólks sé notaður sem skiptimynt og gleymist svo einaldlega – í kerfinu? spyr hún.
Velferðarráðuneytið skoraði á Seltjarnarnesbæ í sumar að hefja undirbúning að þjónustu við þá íbúa Bjargs sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu, en það er meirihluti heimilismanna. Bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi telja aftur á móti að ekki sé grundvöllur fyrir sveitarfélagið að taka við rekstri heimilisins.
Bæjaryfirvöld hafi bent á það á sínum tíma að þegar flutningur málaflokksins fór frá ríki til sveitarfélaga hafi ekki verið minnst á Bjarg og að síðar hafi komið í ljós að þessir einstaklingar höfðu verið á forræði og ábyrgð heilbrigðisyfirvalda og gleymst í allri umræðu milli sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins við yfirfærslu málaflokksins líkt og tvö önnur heimili. Það eigi að vera í höndum ríkisins að semja um rekstur heimilisins.
Velferðarráðuneytið telur aftur á móti að samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks beri sveitarfélög ábyrgð á þjónustu við það og fólk eigi rétt á þjónustu frá því sveitarfélagi sem það á lögheimili í.
Rekstur Bjargs nær aftur til ársins 1968 þegar gerður var samningur milli Hjálpræðishersins og Klepps um rekstur Bjargs fyrir sjúklinga af spítalanum. Vistheimilið var rekið á grundvelli þess samnings allt til ársins 1996 er gerður var samningur sem átti að vera til bráðabirgða á milli heilbrigðisráðuneytisins og Hjálpræðishersins um reksturinn.
Samkvæmt útttektinni ber húsið það með sér að vera komið til ára sinna og þörf á töluverðum endurbótum. Herbergin séu lítil og á þessum tíma voru tveir íbúar í tveimur herbergjum en svo er ekki lengur farið, samkvæmt upplýsingum sem mbl.is hefur undir höndum. Salernin eru þrjú og þar af tvö með sturtu. Rýmin séu öll afar þröng.
Árið 2012 höfðu aðeins þrír íbúar lykla að herbergjum sínum og gátu læst þeim. Hin sjö herbergin eru ævinlega ólæst. Íbúar voru jafnframt ekki með útidyralykil að heimili sínu.
„Með tilliti til þess að nokkrir íbúanna eru á háum aldri og sumir lasburða, er rétt að benda á að aðstaða til umsjár/hjúkrunar legusjúklings til lengri eða skemmri tíma er afar þröng og slæm, bæði á herbergjum, salernum og böðum. Þá eru stigar milli hæða en engin lyfta svo fótfúið fólk, hvað þá fatlað eða farlama, getur ekki búið í húsinu. Heilsubrestur sem leggur einstakling í rúm eða alvarleg fötlun kallar á flutning,“ segir í úttektinni.
Á þeim tíma bjuggu 12 karlmenn á Bjargi. Þá var sá yngsti hálffimmtugur en sá elsti 84 ára. Sá yngsti var á þessum tíma búinn að búa á Bjargi frá því hann var 22 ára eða alls í 23 ár. Sá elsti var 40 ára við komuna og hafði því búið á Bjargi í 44 ár árið 2012.
Höfundur úttektar velferðarráðuneytisins leggur til árið 2012 að rekstur heimilisins Bjargs verði færður á hendur Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness. Að yfirfærslan verði miðuð við 1. september 2013. Að heimilismönnum verði fækkað í tíu þannig að hver þeirra fái sitt herbergi og að félagsleg virkjun íbúanna verði aukin og tómstundastarf þeirra eflt. Þetta er ritað í lok nóvember 2012 eða fyrir tæpum sex árum síðan.
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir sagði í erindi sínu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna að segir að eðlilega eigi ríkið og sveitarfélagið sem um ræðir að taka sig saman og sinna þessum minnstu bræðrum.
Anna Gunnhildur segir að þessu verði jafnvel vísað til ráðuneytis samgöngu- og sveitarstjórnarmála á grundvelli 116 grein sveitarstjórnarlaganna.
Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá Ingveldi Sæmundsdóttur, aðstoðarmanni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, barst bréfið frá velferðarráðuneytinu í dag og verður það skoðað en ekki sé tímabært að tjá sig um það að svo stöddu. Óskað verði eftir áliti frá sveitarfélaginu og frekari upplýsinga frá velferðarráðuneytinu.
Síðdegis í dag var komist að samkomulagi við Kristínu Sigurðardóttur, forstöðumanneskju Bjargs, að hún myndi annast rekstur Bjargs þangað til niðurstaða fæst í málið. Hjörleifur Stefánsson, formaður félags aðstandenda vistmanna á Bjargi, staðfestir þetta við mbl.is en það er Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, sem tryggði það nú á sjötta tímanum að rekstur Bjargs verði ekki stöðvaður á meðan sveitarstjórnarráðuneytið rannsakar málið og aðkomu Seltjarnarnesbæjar að því. Það er því ljóst að heimilsmenn verða ekki heimilislausir um áramót.
116. gr. sveitarstjórnarlaga
Vanræksla sveitarfélaga.
Vanræki sveitarfélag lögbundnar skyldur, svo sem um skil á upplýsingum, að fylgja ákvörðunum sem ráðherra tekur skv. VIII. kafla, úrskurði skv. 111. gr. eða fyrirmælum skv. 112. gr. getur ráðuneytið, að undangenginni áminningu, stöðvað greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða beitt sveitarfélagið dagsektum þar til úr vanrækslunni hefur verið bætt.
Ráðherra skal í reglugerð 1) ákveða lágmarks- og hámarksfjárhæð dagsekta. Ákvörðun um dagsektir skal taka mið af alvarleika brots og íbúafjölda sveitarfélags.
Ákvæði þessu verður beitt gagnvart byggðasamlögum eftir því sem við á.
Dagsektir renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Gera má aðför, án undangengins dóms, til fullnustu sekta. Dagsektir skulu innheimtar ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Fresta skal innheimtu dagsekta ef það málefni sem um ræðir er borið undir dómstóla. Óinnheimtar dagsektir falla niður þegar skyldu er fullnægt.