Tryggja verði íbúum Bjargs öryggi

Heimilið Bjarg er til húsa á Seltjarnarnesi.
Heimilið Bjarg er til húsa á Seltjarnarnesi. mbl.is/Hari

„Stóra vandamálið er að það vofir yfir heimilinu að það verði leyst upp sem væri auðvitað skelfileg ógæfa fyrir heimilismennina,“ segir Hjörleifur Stefánsson, formaður Félags aðstandenda vistmanna á Bjargi, í samtali við mbl.is vegna heimilisins Bjargs á Seltjarnarnesi, sem rekið hefur verið af Hjálpræðishernum undanfarna áratugi, þar sem sjö karlmenn með geðklofagreiningu hafa búið.

Hjörleifur segir að aðalatriðið sé þannig að tryggja áfram búsetuöryggi fyrir þá sem búa á Bjargi. Það sé stóra málið en ekki aðbúnaðurinn á heimilinu. Þar megi vissulega margt betur fara en mikilvægast sé að tryggja að mennirnir geti áfram búið þar. Við yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 var fjármagn sem áður fór til reksturs Bjargs flutt frá velferðarráðuneytinu til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Ríkið telur að ljóst að Seltjarnarnesbæ beri lagalega að taka yfir rekstur heimilisins en því er sveitarfélagið ósammála.

„Fyrst og fremst þarf að tryggja það að þessir menn eigi sér áfram öruggt heimili saman og að heimilinu verði ekki tvístrað. Til lengri tíma litið er síðan æskilegt að finna heimilinu annað og hentugra húsnæði. Þetta eru orðnir rosknir menn og jafnvel gamlir og það er ýmislegt í þessu húsi sem samrýmist ekki kröfum sem gerðar eru til húsnæðis fyrir fatlað fólk. En það hefur ekki verið stórt vandamál til þessa. En ef heimilið þarf að flytja þarf að finna heppilegra húsnæði.“

Hins vegar eigi áherslan ekki að mati félagsins ekki að vera á þessu atriði í augnablikinu heldur að tryggja það að mennirnir geti áfram búið við öruggt búsetuúrræði. Ríkið og Seltjarnarnesbær þurfi að finna lausn á málinu sem fyrst enda hjálpi ekki sú óvissa sem ríkir um framtíð Bjargs mönnunum sem þar búa. Það sé ekki leggjandi á mennina til viðbótar við veikindi þeirra. 

Hjörleifur segir að Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hafi lýst því yfir að Bjarg verði rekið áfram og segir hann félagið fagna því. „Þá verðum við í félaginu ánægð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert