Hneisa að bregðast íbúum Bjargs

Heimilið Bjarg er til húsa á Seltjarnarnesi og hefur verið …
Heimilið Bjarg er til húsa á Seltjarnarnesi og hefur verið rekið í hálfa öld en Hjálpræðisherinn á húsið. mbl.is/Hari

Landssamtökin Geðhjálp og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) lýsa yfir furðu sinni á því að meirihluti Seltjarnarnesbæjar ætli að bregðast lögbundinni skyldu sinni til að veita sjö karlmönnum með flókna geðfötlun á Bjargi á Seltjarnarnesi þjónustu með því að beina því til ríkisins að semja um rekstur vistheimilisins. þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér í sameiningu í dag.

Á vef Seltjarnarnesbæjar var í síðustu viku greint frá því að meirihluti bæjarstjórnar telji réttast að „ríkið semji áfram við Hjálpræðisherinn um rekstur vistheimilisins Bjargs eða annan aðila með sérþekkingu á geðheilbrigðisþjónustu.“ 

Við flutning málaflokks fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaganna gleymdist að færa rekstur Bjargs yfir ti. sveitarfélaganna, en íbúarnir á Bjargi hafa búið á stofnun í allt að 30 ár.

 „Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir kveða skýrt á um að sveitarfélagi beri að veita fötluðum einstaklingum samfellda þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, menntunar, vinnumarkaðar, öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu (3. gr.). Ekki er heldur lengur gert ráð fyrir því að sveitarfélög með færri íbúa en 8.000 þurfi að hafa samvinnu um þjónustu,“ segir í yfirlýsingu ÖBÍ og Geðhjálpar.

Enginn vafi leiki á að Seltjarnarnesbæ beri að taka við þjónustu við íbúana eftir að Hjálpræðisherinn hættir rekstrinum um áramót. „Raunar ætti bærinn að biðja íbúa Bjargs afsökunar á því að hafa ekki veitt þeim liðveislu, akstursþjónustu og aðra viðeigandi þjónustu um árabil.“ 

Ekki eigi fjármagn að standa í vegi fyrir því að Seltjarnarnesbær taki að sér þjónustuna þar sem hún sé nánast alfarið greidd af ríkinu. „Því til viðbótar ætti sveitarfélagið rétt á að innheimta leigu- og fæðiskostnað af íbúunum eftir að þeir hafa fengið greiddar örorkubætur í samræmi við búsetu í sveitarfélaginu.“ Fram að þessu hafa íbúarnir  aðeins fengið greidda lágmarksdagpeninga í tengslum við vistun á stofnun.

„Geðhjálp og ÖBÍ  vísa því alfarið á bug að félagasamtök eins og Hjálpræðisherinn séu betur í stakk búin heldur en sveitarfélagið Seltjarnarnesbær til að sinna þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Þvert á móti hefur sveitarfélagið á að skipa öflugum hópi fagfólks með þekkingu og reynslu til að veita þverfaglega fagþjónustu við íbúana,“ segir í tilkynningunni.

Er skorað á Seltjarnarnesbæ að „víkjast ekki lengur undan þeirri lögbundnu skyldu sinni að veita íbúum á Bjargi þjónustu. Að bregðast þessum íbúum sveitarfélagsins er hreinasta hneisa fyrir sveitarfélagið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert