Fer fram á 8-12 mánaða dóm yfir Júlíusi

Júlíus Vífill Ingvarsson mætir í aðalmeðferð í héraðsdómi í dag.
Júlíus Vífill Ingvarsson mætir í aðalmeðferð í héraðsdómi í dag. mbl.is/​Hari

Saksóknari fór fram á 8-12 mánaða óskilorðsbundinn dóm yfir Júlíusi Vífli Ingvarssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa í Reykjavík, fyrir meint peningaþvætti sem hann er ákærður fyrir. Júlíus viðurkenndi að hafa ekki greitt skatta af umboðslaunum sem komu til vegna viðskipta bifreiðaumboðsins Ingvars Helgasonar á árunum 1982 til 1993.

Fóru fjármunirnir, sem í dag nema um 131-146 milljónum króna, inn á sjóð þar sem hann var rétthafi ásamt eiginkonu sinni og börnum. Hann segir brotin hins vegar fyrnd og að peningaþvætti eigi ekki við í þessu tilfelli.

Þetta var meðal þess sem kom fram við aðalmeðferð peningaþvættismáls gegn honum í héraðsdómi í dag.

Fékk ekki að flytja framsögu

Júlíus óskaði við upphaf aðalmeðferðar eftir að ávarpa dóminn, en þegar Arngrímur Ísberg, dómari málsins, fékk að vita að ræða Júlíusar væri 5 blaðsíður neitaði hann honum um að flytja hana og sagði að hann mætti ávarpa dóminn stuttlega, en gæti ekki verið með svo langa framsögu. Varð úr að beint var farið í yfirheyrslu yfir Júlíusi og hætt við framsöguna. Engin vitni komu fram við aðalmeðferðina, heldur var skýrsla tekin af Júlíusi og síðar farið í málflutning saksóknara og verjanda.

Í málinu er tekist á um fjármuni sem liggur fyrir að hafi komið til vegna umboðsgreiðslna sem bárust vegna reksturs Ingvars Helgasonar á sínum tíma. Árið 2005, þegar afskiptum Ingvars af starfsemi fyrirtækisins lauk, voru fjármunirnir á reikningi í hans nafni. Júlíus viðurkenndi að hann hafi ekki getið fjármunanna á framtali á þessum tíma, en sagði það ekki hið sama og að hafa brugðist skattskyldu.

Fyrnd skattbrot, en deilt um peningaþvætti

Ljóst er að meint skattbrot eru löngu fyrnd, en árið 2014 færði Júlíus fjármunina yfir á svokallaðan „Trust-fund“ í Julius Baer-bankanum í Sviss. Var Júlíus þar rétthafi ásamt eiginkonu og börnum. Saksóknari telur að með þessari færslu fjármunanna hafi Júlíus gerst sekur um peningaþvætti með svokölluðu sjálfsþvættibroti. Það þýðir að hann hafi þvættað fjármuni með því að umbreyta, flytja, senda, leyna eða geyma ávinning af broti.

Saksóknari telur að með þessu hafi hann framið peningaþvættisbrot og það sé óháð meintu frumbroti sem sé skattbrotið á níunda og tíunda áratugnum. Sagði hann að um væri að ræða umboðslaun greidd vegna reksturs hlutafélags sem hafi verið flutt á reikning Júlíusar og að hann hafi svo þvættað þá fjármuni sjálfur yfir á fyrrnefndan sjóð. „Það liggur fyrir að ekki voru greiddir skattar af þessum fjármunum,“ sagði saksóknari og bætti við: „Leikurinn gerður til þess að komast hjá því að greiða skatta.“

Verjandi Júlíusar útlistaði í málflutningi sínum röksemdir fyrir því að um fyrnt frumbrot væri að ræða og að miða ætti við fyrningardagsetningu sem miðast við öflun fjármunanna, en ekki hvort fjármunirnir hafi verið hreyfðir eins og gert var árið 2014. Sagði hann málið sprottið af fjölmiðlaumfjöllun og deilum innan fjölskyldu Júlíusar sem hafi gengið fram með rakalausar ásakanir.

Sagði verjandi að málflutningur saksóknara byggðist á því að hafa reglur sakamálalaga og reglur um fyrningu að engu. Þannig væri reynt að láta peningaþvættismál lúta öðrum lögmálum en önnur mál.

Lögin til að komast yfir ávinning af brotum

Saksóknari sagði þetta rangt, enda væru lögin huguð til að komast yfir gríðarlegan ávinning af mögulegum skattbrotum sem annars væri ekki hægt að komast yfir vegna fyrningar. Sagði verjandi að miðað við þessa framsetningu ákæruvaldsins myndu peningaþvættisbrot aldrei eiga raunverulegan upphafstíma eða fyrningu sem væri andstætt öðru í sakamálarétti. Væri þá um að ræða sérreglur sem gætu ekki átt sér stoð í lögum. Saksóknari tók hins vegar dæmi máli sínu til stuðnings og sagði að ef tegund fíkniefnis væri gerð ólögmæt þá væri upp frá því varsla viðkomandi fíkniefnis ólögmæt, alveg sama þótt viðkomandi einstaklingur hafi eignast efnið fyrir þann tíma. Sama ætti við í þessu máli með peningaþvættið.

Rannsóknarlögreglumaður málsins frambjóðandi VG

Meðal þess sem Júlíus nefndi í greinargerð sinni í málinu var að einn rannsakandi málsins hjá lögreglunni hefði verið þingmaður fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð. Sagði verjandi hans það í besta falli óheppilegt að sá maður hafi verið fenginn til að rannsaka málið í ljósi þess að Júlíus hefði í áratugi verið í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þá hefði lögreglumaðurinn einnig lýst opinberlega yfir skoðun sinni varðandi skattaskjól. Saksóknari sagði þessar ásakanir um mögulegt vanhæfi rannsakandans vera fráleitar og ekki tilefni til nánari umfjöllunar.

Þegar tekið er tillits til upphæðar meintra brota Júlíusar sagði saksóknari að ekki væri hægt að skilorðsbinda dóminn. Þá hefði hann vísvitandi og með skipulögðum hætti þvættað háar upphæðir í eigin þágu í gegnum erlenda reikninga þannig að hann hafi haft mikinn ávinning af. Vegna þessa taldi hann rétt að dæma Júlíus í 8-12 mánaða fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert